Innlent

Rændi ekki neinu og skildi símann eftir

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Sumarkvöld í Laugardal
Sumarkvöld í Laugardal Vísir/Vilhelm Gunnarsson

Húsráðanda í Laugardal brá í brún á þriðja tímanum í nótt þegar hann gekk fram á innbrotsþjóf á heimili sínu. Hann lét það þó ekki slá sig út af laginu að sögn lögreglu heldur stökk til og reyndi að handsama þjófinn. Húsráðandinn og boðflennan eru sögð hafa slegist áður en sá síðarnefndi flúði út í nóttina ránsfengslaus- en slysaðist þó til að skilja símann sinn eftir í fórum húsráðanda.

Var lögreglan kölluð og segist hún ekki hafa verið lengið að hafa uppi á hinum hnuplsama, og um leið eiganda símans. Hann er sagður hafa verið nokkuð slompaður þegar lögreglan flutti hann í fangaklefa þar sem hann hefur mátt sofa úr sér vímuna.

Að þessu frátöldu lutu flest útköll lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt að umferðalagabrotum, ekki síst grun um vímuefnaakstur. Lögreglumenn voru jafnframt sendir að heimahúsi í Grafarvogi til leysa upp teiti, auk þess sem maður var handtekinn fyrir eignaspjöll í Fossvogi á áttunda tímanum. Sá tók fyrirmælum lögreglu illa og er sagður hafa veist að lögregluþjónum. Hann var því handtekinn og fluttur í fangaklefa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×