Innlent

Mikil eftirspurn eftir magaaðgerðum vegna offitu

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar

Eftirspurn eftir aðgerðum vegna offitu hefur aukist hér á landi. Á fyrstu níu mánuðum ársins voru gerðar hátt í fimm hundruð skurðaðgerðir á maga vegna offitu en langflestar voru gerðar á einkastofum.

Landlæknisembættið birti í vikunni greinargerð um bið eftir skurðaðgerðum. Þar má sjá að sérstakt átak, sem ráðist var í til að stytta bið eftir aðgerðum, hefur skilað árangri. Meðal annars þegar kemur að skurðaðgerðum á augasteinum. 

„Þetta biðlistaátak hefur í heild skilað miklum árangri því það hefur tekist að fjölga aðgerðum og þannig stytta biðlistana en hins vegar sjáum við líka að eftirspurn eftir ýmsum aðgerðum hefur aukist og því hefur aukinn aðgerðafjöldi ekki alltaf getað haldið í við þá þróun," segir Laura Scheving Thorsteinsson teymisstjóri úttekta hjá Landlæknisembættinu.

Þannig hefur eftirspurn eftir aðgerðum vegna offitu aukist en í október voru eitt hundrað og fjörutíu á biðlista eftir offituaðgerðum. Skurðaðgerðir á maga vegna offitu eru annars vegar gerðar á Landspítalanum og hins vegar á einkastofum líkt og hjá Klíníkinni og Gravitas. Þeir sem fara í aðgerð á eigin vegum hjá einkastofu greiða fyrir aðgerðina sjálfir. Kostnaðurinn er allt frá einni komma tveimur milljónum króna og upp úr. 

Á fyrstu níu mánuðum ársins voru gerðar 448 aðgerðir.Vísir/Hlynur

Tölurnar sýna að fjögur hundruð fjörutíu og átta skurðaðgerðir á maga voru framkvæmdar á fyrstu níu mánuðum þessa árs en árið 2017 voru þær þrjú hundruð níutíu og sex. Flestar aðgerðirnar voru framkvæmdar hjá Klíníkinni eða tvö hundruð tuttugu og fjórar og hundrað fimmtíu og sjö hjá Gravitas. Þær voru aðeins sextíu og sjö á Landspítalanum. 

Löng bið er eftir skurðaðgerðum á maga vegna offitu hjá Landspítalanum.Vísir/Hlynur

Bið eftir aðgerð á Landspítalanum var um fjörutíu og fjórar vikur. Þeir sem hins vegar fóru í aðgerð á einkastofu þurftu ekki að bíða nema sex vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×