Gæsluvarðhald yfir manni sem handtekinn var fyrir jól, grunaður um að hafa brotist inn í skartgripaverslun á Laugavegi og stolið þaðan skartgripum að verðmæti margra milljóna króna, rennur út í dag. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu verður að öllum líkindum ekki farið fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir honum.
Þá hafa skartgripirnir ekki komið í leitirnar en lögregla biðlar til nágranna að hafa augun opin fyrir þýfinu.
Brotist var inn í gullsmíðaverslun Hjálmars Torfasonar á Laugavegi snemma að morgni 20. desember. Téður maður var handtekinn skömmu síðar og úrskurðaður í gæsluvarðhald.
Leituðu vel í grennd við búðina
Guðmundur Pétur Guðmundsson lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir í samtali við Vísi að fjöldi lögreglumanna hafi leitað að skartgripunum í ruslatunnum og á öðrum vænlegum felustöðum í nágrenni verslunarinnar í síðustu viku en ekkert fundist. Þá hafi ekki tekist að sanna aðild mannsins að innbrotinu.
„Hann er grunaður við rannsókn málsins, kemur snemma í ljós, og er þekktur síbrotamaður. Og þar af leiðandi kemur [hann] inn í mynd en ekki nógu sterkt. Við sjáum hann ekkert stela þessu,“ segir Guðmundur.
Lögregla biðlar nú til íbúa á svæðinu í kringum verslunina að líta vel í kringum sig eftir skartgripum sem mögulega kunni að hafa verið faldir í skúmaskotum. Um er að ræða skartgripi af ýmsum gerðum.
Torfi Hjálmarsson eigandi verslunarinnar sagði í samtali við Vísi fyrir jól að innbrotið hefði reynst sér afar þungbært. Aðkoman hefði verið ógeðsleg en aðaltjónið væri auðvitað fólgið í skartgripaþjófnaðinum. Verslunin er fjölskyldufyrirtæki og fagnar sextíu ára afmæli rekstursins á næsta ári.
