Erlendur karlmaður á þrítugsaldri varð fyrir líkamsárás tveggja manna í miðborg Reykjavíkur snemma í morgun. Lögregla rannsakar málið sem hugsanlegan hatursglæp, að því er segir í tilkynningu frá lögreglu. Ekki kemur fram í tilkynningu hvort grunaðir árásarmenn hafi verið handteknir.
Þá er talið að einhvers konar málmáhald hafi verið notað við árásina. Þolandi hlaut áverka í andliti og var einnig nokkuð vankaður, að því er segir í tilkynningu. Hann var fluttur á slysadeild með sjúkrabíl.
Líkamsárás með „málmáhaldi“ rannsökuð sem mögulegur hatursglæpur
