Alþingi samþykkti í gær lög sem greiða fyrir sameiningu embætta ríkisskattstjóra og tollstjóra. Mun sameinuð stofnun heita Skatturinn og á heimasíðu fjármála- og efnahagráðuneytisins er hún sögð verða öflug og leiðandi upplýsingastofnun á sviði skatta- og tollamála.
Um 470 manns munu starfa hjá Skattinum undir forystu núverandi ríkisskattstjóra, Snorra Olsen.
„Ljóst er að mikil tækifæri felast í því að álagning, innheimta og eftirlit sé á sömu hendi, en meginmarkmiðið með sameiningu embætta tollstjóra og ríkisskattstjóra er að bæta þjónustu. Stafræn þjónusta og sjálfvirknivæðing verður í forgrunni í sameinaðri stofnun, sem verður betur í stakk búin til að takast á við áskoranir til framtíðar en tvær minni sjálfstæðar stofnanir.
Þess er vænst að sameiningin skili auknum árangri við vettvangseftirlit tollgæslu og betri möguleikum til að takast á við stærri efnahagsbrot innanlands og yfir landamæri, s.s. peningaþvætti,“ segir í tilkynningunni.
Ennfremur er minnst á að stofnunum á sviði skatta og tolla hafi fækkað mikið undanfarinn áratug. Þannig hafi þær verið þrettán talsins árið 2009, en verða nú um áramótin þrjár.
Skatturinn tekur til starfa um áramót eftir sameiningu embætta
