Aðstandendur flugfélagsins Play eru búin að greiða starfsmönnum sínum laun fyrir nóvembermánuð. Mannlíf greindi fyrst frá en María Margrét Jóhannsdóttir samskiptafulltrúi Play staðfestir þetta í samtali við Vísi.
Greint var frá því í byrjun mánaðar að Play hefði ekki getað greitt starfsfólki sínu laun fyrir nóvember. María sagði í samtali við Vísi á sínum tíma að til stæði að greiða laun hið fyrsta.
María segir í samtali við Vísi að laun og öll launatengd gjöld fyrir nóvembermánuð hafi nú verið greidd, sem og desemberuppbót. Félagið hafi ekki skuldað laun fyrir aðra mánuði en í kringum 25 til 30 starfsmenn eru á launaskrá.
Á lokametrunum
Komið hefur fram að fjármögnum Play hafi gengið erfiðlega. Markaðurinn greindi frá því í byrjun mánaðar að forsvarsmenn Play hefðu boðist til að minnka hlutdeild sína í félaginu í þrjátíu prósent á móti sjötíu prósent eignarhlut fjárfesta. Þá var ákveðið að fresta sölu á fyrstu flugmiðum félagsins, sem ráðgert var að færu í sölu í síðasta mánuði.
María segir aðspurð að vinnan við að koma Play á flug gangi mjög vel.
„Þetta er á lokametrunum. Þetta næst örugglega ekki fyrir jól að minnsta kosti en við vonumst til að byrja í janúar.“