Innlent

Kom að ó­kunnugu pari í bíl­skúr sínum á Sel­tjarnar­nesi

Atli Ísleifsson skrifar
Um kvöldmatarleytið í gær var tilkynnt um tvö innbrot í Árbæ.
Um kvöldmatarleytið í gær var tilkynnt um tvö innbrot í Árbæ. Vísir/Vilhelm
Lögregla á höfuðborgarsvæðinu var kallað út síðdegis í gær eftir að húseigandi á Seltjarnarnesi kom að ókunnugu pari í bílskúr sínum.

Í dagbók lögreglu segir að parið hafi verið búið að taka verkfæri og ýmislegt fleira. Húsráðandi sagði þeim að skila hlutunum og fóru þau án þess að taka nokkuð með sér. Þau ógnuðu þó húsráðanda með eggvopni áður en þau héldu á brott. Lögreglu tókst ekki að hafa uppi á parinu þrátt fyrir leit.

Um kvöldmatarleytið var svo tilkynnt um tvö innbrot í Árbæ. Húsráðendur höfðu ekki verið heima þegar brotist var inn, en á öðru heimilinu hafði skartgripum verið stolið. Ekki var skráð hverju var stolið á hinum staðnum.

Um klukkan 17:15 í gær var svo tilkynnt um umferðarslys í Kópavogi. Hafði annar ökumaðurinn, sá sem ábyrgð bar á slysinu, gengið burt frá vettvangi með opna bjórdós í hönd en var handtekinn síðar. „Maðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna + áfengis og vörslu fíkniefna.  Hann var vistaður í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn máls. Meiðsl tjónþola og tveggja farþega hans eru skráð eymsli eftir öryggisbelti og hnykkur. Báðar bifreiðar fluttar af vettvangi með Króki,“ segir í dagbók lögreglu.

Þá segir að lögregla hafi einnig þurft að hafa afskipti af nokkrum ökumönnum til viðbótar sem grunaðir eru um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×