Erlent

Banda­rískir her­menn verða á­fram í Sýr­landi

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AP
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur staðfest að nokkur hópur bandarískra hermanna verði áfram í Sýrlandi þrátt fyrir brottflutning þeirra frá norðausturhéruðum landsins á dögunum, sem gerði Tyrkjum kleift að ráðast á svæðið.

Þegar sú ákvörðun var tilkynnt sagði hann kominn tíma til að kalla alla bandaríska hermenn heim frá landinu en nú er komið annað hljóð í strokkinn og segir Trump nú hermenn verði áfram í landinu til að vernda þar olíuvinnslusvæði. Að auki verða bandarískir hermenn einnig staðsettir í grennd við landamærin að Ísrael og Jórdaníu.

Brottflutningur hermannanna virðist því vera mun minni en Trump talaði um í upphafi auk þess sem flestir þeirra sérsveitarmanna sem störfuðu í Kúrdahéruðunum munu hafa verið sendir á átakasvæði í Írak, en ekki heim til Bandaríkjanna.

Allt í allt eru um 200 þúsund bandarískir hermenn staddir á átakasvæðum víðsvegar um heiminn í dag, að sögn breska ríkisútvarpsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×