Erlent

Marc Dutroux má gangast undir nýja geð­rann­sókn

Atli Ísleifsson skrifar
Marc Dutroux var handtekinn árið 1996.
Marc Dutroux var handtekinn árið 1996. epa
Belgíski raðmorðinginn og barnaníðingurinn Marc Dutroux má ganga undir nýja geðrannsókn. Þetta úrskurðaði dómstóll í Belgíu í morgun.

Lögmenn hins 62 ára Dutroux vona að ný rannsókn geti mögulega opnað á þann möguleika að hann geti afplánað dóm sinn utan veggja fangelsis, þá í fyrsta lagi árið 2021. Le Soir greinir frá þessu.

Dutroux hlaut árið 2004 lífstíðardóm fyrir að hafa nauðgað og myrt sex ungar stúlkur um miðjan tíunda áratuginn, en málið vakti gríðarlega athygli í Belgíu og víðar í heiminum.

Tvö fórnarlömb Dutroux létust af völdum vannæringar, en hann faldi þær í kjallara húss síns í Marcinelle. Er hann fyrirlitinn í Belgíu þar sem margir hafa lagst gegn því að hann eigi möguleika á að sleppa úr fangelsi. Dutroux gekkst síðast undir geðrannsókn árið 2013.

Fyrrverandi eiginkona Dutroux, Michelle Martin, hlaut á sínum tíma þrjátíu ára dóm fyrir aðild sína að ódæðunum. Henni var sleppt úr fangelsi árið 2012 og hefur haldið til í klaustri síðan.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×