Erlent

Verður fyrsta konan til að gegna em­bætti for­sætis­ráð­herra Belgíu

Atli Ísleifsson skrifar
Sophie Wilmes hefur verið ráðherra fjárlaga síðustu ár.
Sophie Wilmes hefur verið ráðherra fjárlaga síðustu ár. Getty
Sophie Wilmes hefur verið skipuð forsætisráðherra Belgíu til bráðabirgða og verður hún fyrsta konan til að gegna embættinu. Landið hefur verið án meirihlutastjórnar síðan í desember á síðasta ári.

Filippus Belgíukonungur greindi frá skipuninni í gær. Wilmes tekur við stöðunni af Charles Michel sem mun taka við embætti forseta leiðtogaráðs ESB af Pólverjanum Donald Tusk í desember. Sophie Wilmes hefur verið ráðherra fjárlaga síðustu árin.

Hin 44 ára Wilmes er frjálslynd og frönskumælandi, en hún kemur úr röðum flokksins MR, flokki Michel.

Ríkisstjórn Michel missti meirihluta sinn í desember og fóru þingkosningar fram í maí síðastliðinn. Enn hefur þó ekki tekist að mynda nýja stjórn og hefur Michel stýrt starfsstjórn síðasta tæpa árið.

Þetta er ekki fyrsta sinn sem stjórnarmyndunarviðræður dragast á langinn í Belgíu, en árið 2010 var mynduð stjórn eftir 541 daga viðræður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×