Erlent

Johnson sendi bréf með beiðni um frestun

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. Nordicphotos/AFP
Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands sendi í kvöld bréf til Donald Tusk forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins, þar sem hann óskaði eftir frestun á útgöngu Breta. Samkvæmt frétt BBC undirritaði hann þó ekki bréfið. Tusk staðfesti móttöku bréfsins á Twitter í kvöld, hann sagði ekkert um innihaldið en tók þó fram að í samráði við leiðtoga Evrópusambandsins yrði nú ákveðið hvernig brugðist verði við bréfinu.

 

Eins og kom fram á Vísi í dag varð Johnson fyrir áfalli í dag þegar breska þingið ákvað að samþykkja þyrfti hverja lagasetningu sem liggur til grundvallar útgöngusamningi Johnson áður en atkvæði verða greidd um hann. Þar með tefst atkvæðagreiðslan um þann samning en Johnson hefur ítrekað sagt að hann myndi ekki óska eftir frestun.

Boris boðaði til þingfundar á laugardegi, sem hefur ekki gerst í 37 ár. Oliver Letwin, sem Johnson rak úr Íhaldsflokknum fyrir að fara gegn stefnu hans, lagði hins vegar fram fyrrnefnda breytingartillögu í dag sem náðist meirihluti fyrir, 322 atkvæði gegn 306. 

Eiríkur Bergmann prófessor í stjórnmálafræði sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld að Johnson hefði ekki kost á öðru en að sækja um frest.„Hann verður að gera það lögum samkvæmt, annars eru það viðurlög í réttarsal ef hann gerir það ekki. Hann getur hins vegar hugsanleg fundið einhverja leið til að afgera gjörðina pólitískt, sem hann varð að framkvæma lagalega.“

Nú hefur Johnson óskað eftir frestun á Brexit en óvíst er hvort Evrópusambandið verði við þeirri ósk. Samkvæmt heimildarmanni BBC var bréfið um frestunina ekki undirritað. Hann sendi þó einnig annað bréf um að frestun væri mistök, það bréf á hann að hafa undirritað.


Tengdar fréttir

Segir Boris hafa verið niðurlægðan í dag

Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, varð fyrir áfalli í dag þegar breska þingið ákvað að samþykkja þyrfti hverja þá lagasetningu sem liggur til grundvallar útgöngusamningi Johnsons áður en atkvæði verða greidd um hann. Þýðir þetta frekari frestun á útgöngunni, sem Johnson gaf í skyn að hann myndi jafnvel ekki fara fram á.

Þinghóparnir gætu tvístrast

Stund sannleikans rennur upp í dag fyrir Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, um hvort hann nær að koma útgöngusamningnum í gegnum breska þingið. Þrír hópar, sem skipta mestu máli, liggja nú yfir samningnum og gera upp hug sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×