Yfirlýsing hóps sem nefnir sig CLINTEL var send á Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið í aðdraganda loftslagsráðstefnu Antonio Guterres, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, í New York í síðustu viku.
Í yfirlýsingunni, sem ber yfirskriftina „Það er ekkert loftslagsneyðarástand“, fullyrðir hópurinn að það sé „ímyndun“ að það hafi kosti í för með sér að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem valda loftslagsbreytingum á jörðinni. Þvert á móti talar hópurinn fyrir því að gott sé að auka losunina enn frekar þó að vísindamenn segi að haldi losun áfram óbreytt gæti hnattræn hlýnun náð 3-5°C fyrir lok aldarinnar með gríðarlegum áhrifum á lífríki jarðar og samfélög manna.
Farið er frjálslega með staðreyndir í yfirlýsingunni um þekkingu manna á orsökum og afleiðingum loftslagsbreytinga og áreiðanleika loftslagslíkana. Þar eru settar fram löngu hraktar fullyrðingar sem andmælendur loftslagsvísinda hafa borið fram um árabil og stangast á við þekkingu vísindamanna og stofnana um allan heim.
Þar er meðal annars fullyrt að hlýnun sé mun minni en „upphaflega var spáð“ og að loftslagslíkön séu óáreiðanleg. Þvert á móti hafa loftslagslíkön verið í góðu samræmi við mælda hlýnun.

Kirkjufell notað í kynningarefninu
Fæstir þeirra sem skrifa undir yfirlýsinguna hafa nokkra sérþekkingu á loftslagsvísindum. Í mörgum tilfellum er um að ræða verkfræðinga, hagfræðinga og prófessora á eftirlaunum. The Guardian segir að námuverkfræðingar og viðskiptamenn séu einnig í hópnum auk stjórnenda hugveitna sem þræta fyrir loftslagsvísindi og þrýsta á um afnám reglugerða, þar á meðal Heartland-hugveitunnar bandarísku.Þannig er íslenski fræðimaðurinn sem leggur nafn sitt við yfirlýsinguna ekki með sérþekkingu á loftslagsvísindum. Rögnvaldur Hannesson er prófessor emirítus við Hagfræðiskóla Noregs. Í tilkynningu á vef Háskólans á Akureyri frá því að Rögnvaldur var sæmdur heiðursdoktorsnafnbót í janúar kemur fram að hann sé auðlindahagfræðingur sem hafi kennt fiskihagfræðingi við sjávarútvegsdeild skólans. Á vefsíðu norska skólans kemur fram að hann sérhæfi sig meðal annars í „olíuhagfræði“.
Athygli vekur að í yfirlýsingunni má finna mynd af Kirkjufelli við Grundarfjörð.
The Guardian í Ástralíu segir enn frekar að CLINTEL-hópurinn sé að miklu leyti skipaður sama fólki og skipuleggjendum og hópur sem skaut upp kollinum gegn loftslagsvísindum í kjölfar Brexit-þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Sá hópur hafi einnig haldið því fram að gott væri að losa meira af gróðurhúsalofttegundum.
Vefsíðan DeSmog, sem fjallar um loftslagsvísindaafneitun, fjallaði um aðdraganda yfirlýsingar CLINTEL í byrjun september. CLINTEL sjálft hafi verið stofnað í apríl af hollenska verkfræðingnum Guus Berkhout sem starfaði áður fyrir olíurisann Shell og fyrir olíu- og gasiðnaðinn. Aðeins örfáir þeirra sem hafi skrifað undir yfirlýsingu hópsins hafi bakgrunn í loftslagsvísindum, aðrir vinni við skriftir eða séu verkfræðingar eða jarðfræðingar með enga bein sérþekkingu.