Í yfirlýsingu Peningastefnunefndar segir að haldið hafi áfram að hægja á hagvexti á fyrri hluta þessa árs þótt hann hafi verið heldur meiri en gert var ráð fyrir í ágústhefti Peningamála. Meiri vöxtur skýrist einkum af hagstæðara framlagi utanríkisviðskipta þar sem eftirspurn beinist í meira mæli að innlendri framleiðslu og vegur það upp á móti samdrætti í útflutningi.
Leiðandi vísbendingar benda til þess að áfram muni hægja á vexti efnahagsumsvifa en sjá má merki þess að þjóðarbúið sé mögulega að ná viðspyrnu.

Þá bendi nýleg þróun til þess að efnahagsumsvif hafi verið þróttmeiri en gert hefur verið ráð fyrir. Hins vegar séu horfur framundan óvissar, sérstaklega í alþjóðlegum efnahagsmálum. Því gæti dregið hraðar úr innlendum hagvexti en nú er búist við.
Peningastefnan mun á næstunni ráðast af samspili þróunar efnahagsumsvifa annars vegar og verðbólgu og verðbólguvæntinga hins vegar.
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,25 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 3,25. https://t.co/tnqyYYgfrh pic.twitter.com/CKe13FaHBz
— Seðlabanki Íslands (@sedlabanki_is) October 2, 2019
1. Daglán 5,00%
2. Lán gegn veði til 7 daga 4,00%
3. Innlán bundin í 7 daga 3,25%
4. Viðskiptareikningar 3,00%
5. Bindiskyldar innstæður, meðaltalsuppfyllt 3,00%
6. Bindiskyldar innstæður, föst bindiskylda 0,00%
Klukkan 10:00, hefst vefútsending þar sem Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri gerir grein fyrir ákvörðun peningastefnunefndar og svarar spurningum ásamt Rannveigu Sigurðardóttur aðstoðarseðlabankastjóra. Sýnt verður beint frá fundinum á Vísi.
Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, ræddi breytinguna í Bítinu á Bylgjunni í morgun.