Innlent

Stórveldin sýna Hringborði norðurslóða aukinn áhuga

Heimir Már Pétursson skrifar

Aukinn áhugi Bandaríkjanna á málefnum norðurslóða sýnir sig með þátttöku þeirra í Hringborði norðurslóða í Hörpu í næstu viku. Meðal gesta verður orkumálaráðherra Bandaríkjanna og forstöðumaður æðstu stofnunar landsins í umhverfismálum. Á þinginu verður meðal annars rætt við vísindamenn beint frá Norðurskautinu.



Árlegt þing Hringborðs norðurslóða, Arctic Circle, hefst í Hörpu eftir viku. Dagfinnur Sveinbjörnsson framkvæmdastjóri Hringborðsins segir aukinn áhuga stórveldanna á málefninu koma skýrt fram á þinginu. „Þannig að það setur nokkuð mark sitt á þetta þing frekar en þau sem verið hafa á liðnum árum.“



Og það kemur háttsettur embættismaður frá Bandaríkjunum á þingið?



„Já orkumálaráðherra Bandaríkjanna kemur á þingið. Hann óskaði eftir því sérstaklega við Hringborð norðurslóða að fá að koma og flytja ræðu,“ segir Dagfinnur. Sem og Antti Rinne forsætisráðherra Finnlands, Jeppe Kofod utanríkisráðherra Danmerkur, John Kerry fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, auk áhrifafólks víða að, vísindamanna og samtaka. Þá mætir forstöðukona National Science Foundation til þingsins.



„Það eru þó nokkuð mikil tíðindi því það er ein öflugasta vísindastofnun í heimi, National Science Foundation í Bandaríkjunum. En síðan má nefna líka, vegna þess að það er eitt af því sem rætt hefur verið á fyrri þingum, sem er þessi aukna þátttaka Asíuríkja á Hringborði Norðurslóða. Ein ástæðan fyrir því að þeir koma og sækja þingið eru hin miklu áhrif sem breytingarnar á norðurslóðum hafa í Asíu,“ segir Dagfinnur. 



Ráðstefnugestum býðst að tengjast viðamesta rannsóknarleiðangri sem nokkru sinni hefur verið farinn á norðurskautið og kallast MOSAIC og hófst í síðasta mánuði þegar þýski ísbrjóturinn Norðurstjarnan sigldi beint inn í norðurskautsísinn.



„Og hann látinn reka þar yfir veturinn. Þetta er mjög alþjóðlegt samstarfsverkefni sem þjóðir í Evrópu, vestanhafs og líka asíuríkin eiga þátt í. Og einmitt boðið upp á það að tengjast skipinu sem núna er komið inn í hafísinn og leggja spurningar fyrir áhöfnina,“ segir Dagfinnur Sveinbjörnsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×