Innlent

Kalt loft og gránar í fjöll

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Það gæti gránað í hæstu fjöll á Norðausturlandi síðdegis í dag.
Það gæti gránað í hæstu fjöll á Norðausturlandi síðdegis í dag. Vísir/vilhelm
Í dag má búast við norðaustan 8-13 m/s víðast hvar á landinu en 13-18 m/s um tíma norðvestantil. Rigning um landið norðan- og austanvert en annars bjart með köflum. Þá fylgir kalt loft norðaustanáttinni og mun grána í hæstu fjöll norðaustanlands síðdegis, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Norðaustan- eða austlægar áttir verða ríkjandi á landinu fram yfir helgi með kólnandi veðri og rigningu á láglendi en snjókomu til fjalla á austurhluta landsins. Annars má búast við bjartviðri.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag:

Norðaustan 8-13 m/s, en 13-18 norðaustantil á landinu. Víða rigning, jafnvel talsverð rigning norðaustur- og austurlandi og slydda eða snjókoma til fjalla, en bjart með köflum sunnan- og vestanlands. Hiti 3 til 10 stig, hlýjast syðst.

Á föstudag:

Norðaustan 5-10 m/s og stöku skúrir, en dálítil rigning eða slydda á láglendi norðaustantil og snjókoma til fjalla. Lengst af þurrt á Vesturlandi. Hiti 1 til 7 stig.

Á laugardag:

Austlæg eða breytileg átt og skýjað með köflum og dálítil væta í flestum landshlutum. Hiti 1 til 6 stig að deginum.

Á sunnudag:

Austlæg átt, bjartviðri, en stöku skúrir vestantil. Víða frost norðan- og austanlands en hiti allt að 6 stigum á Suður- og Suðvesturlandi.

Á mánudag:

Austlæg átt og lítilsháttar rigning sunnan- og austantil, jafnvel slydda austast, en bjart með köflum um landið vestanvert. Hiti breytist lítið.

Á þriðjudag:

Austlæg átt og lítilsháttar væta með norðaustur- og austurströndinni, en annars léttskýjað. Áfram kalt í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×