Innlent

Allt að 18 stiga hiti

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Það ætti að viðra vel á Vopnfirðinga í dag.
Það ætti að viðra vel á Vopnfirðinga í dag. Vísir/vilhelm
Fólk við suðurströndina ætti að búa sig undir allhvassan vind í dag ef marka má veðurkort Veðurstofunnar. Þar má jafnframt gera ráð fyrir rigningu eða súld á köflum.

Annars staðar á landinu verður þó hægari vindur, mild suðlæg eða austlæg átt, og ekki teljandi úrkoma. Þannig verður að mestu þurrt fyrir norðan og upp í 18 stiga hiti þar.

Veðurstofan segir að það sé ekki mikilla breytinga að vænta í veðrinu á morgun, áfram verði austlægar átti ríkjandi og væta með köflum. Norðausturhluti landsins ætti þó að haldast þurr.

Eftir það sé útlit fyrir að rigningin verði einkum bundin við sunnan- og austanvert landið fram að helgi, en þá snúist í norðaustlæga átt með úrkomuminna veðri og kólni, einkum fyrir norðan.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag og miðvikudag:

Austan og suðaustan 5-10 m/s, en 10-15 með suðurströndinni. Yfirleitt þurrt og bjart um landið norðanvert, en rigning með köflum annars staðar. Hiti 9 til 17 stig, hlýjast norðan- og vestanlands.

Á fimmtudag:

Austlæg átt 10-18 m/s, hvassast NV-til. Rigning um landið sunnan- og austanvert, en þurrt að kalla í öðrum landshlutum. Hiti 10 til 16 stig, hlýjast V-til.

Á föstudag:

Austan og norðaustan með rigningu N- og A-lands og 6 til 11 stiga hita. Bjart að mestu SV-til og hiti að 15 stigum.

Á laugardag:

Norðaustlæg átt og rigning með köflum, en þurrt á V-helmingi landsins. Hiti breytist lítið.

Á sunnudag:

Útlit fyrir norðaustlæga átt, úrkomulítið veður og kólnar.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×