Erlent

Johnson gæti orðið skammlífasti forsætisráðherra Breta

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Spjótin beinast nú að Boris Johnson, breska forsætisráðherranum, eftir að hæstiréttur úrskurðaði ákvörðun hans um að fresta þingfundum ólögmæta.

Brenda Hale, forseti hæstaréttar, tilkynnti um úsrkurðinn í morgun og sagði þingfrestunina ólögmæta þar sem hún hafi komið í veg fyrir að þingið sinnti sínu hlutverki í samræmi við bresk stjórnlög. „Áhrifin á grundvallarstoðir bresks lýðræðis voru gríðarleg,“ sagði Hale.

Krefjast afsagnar

Miðað við þá stöðu sem komin er upp, og háværar kröfur stjórnarandstöðunnar um að Johnson segi af sér vegna málsins, er ekki útilokað að hann verði skammlífasti forsætisráðherra í sögu Bretlands. Hann hefur í dag setið í 62 daga en sá sem hefur styst verið í embætti var George Canning, forsætisráðherra sumarið 1827, sem sat í 119 daga.

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, reið á vaðið í morgun og bauð Johnson að íhuga stöðu sína alvarlega. Jo Swinson, leiðtogi Frjálslyndra demókrata, tók undir og sagði: „Þessi afdráttarlausa og samróma ákvörðun hæstaréttar sýnir svart á hvítu að Boris Johnson er vanhæfur til að gegna embætti forsætisráðherra.“

Það gerði Nicola Sturgeon, leiðtogi Skoska þjóðarflokksins, einnig. „Séu reglur lýðræðis raunverulegar tel ég að allir forsætisráðherrar með vott af sómakennd myndu segja af sér í dag.“

Vill ekki fresta útgöngu

Johnson tjáði sig ekki um mögulega afsögn þegar hann ræddi við fjölmiðla. Sagðist ósammála niðurstöðunni og að málið snerist um að trufla Brexit-ferlið. Ítrekaði hann einnig ákall sitt um nýjar kosningar. „Núgildandi lög kveða á um að við göngum út þann 31. október og ég er vongóður um að við náum nýjum samningi.“

Þing kemur aftur saman á morgun. Þingforseti útilokar ekki að veita þingmönnum dagskrárvald. Þá gætu stjórnarandstæðingar komið í veg fyrir að ríkisstjórnin fresti þingfundum aftur, en þann möguleika útilokaði lögmaður ríkisstjórnarinnar ekki fyrir hæstarétti.

Ef þingið samþykkir ekki útgöngusamning í síðasta lagi 19. október, og heimilar ekki samningslausa útgöngu, mun Johnson þurfa að biðja Evrópusambandið um frest. Ljóst er að Johnson vill komast hjá því og hefur hann sagst ekki ætla að biðja um frestun útgöngu.


Tengdar fréttir

Úrslitastund fyrir þingfrestun Boris

Hæstiréttur Bretlands mun núna klukkan 9:30 að íslenskum tíma fella dóm sinn um hvort þingfrestun Boris Johnson í aðdraganda Brexit hafi verið lögleg eður ei.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×