Lífið

Helsti texta­smiður Grateful Dead er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Robert Hunter varð 78 ára gamall.
Robert Hunter varð 78 ára gamall. AP
Robert Hunter, textasmiður margra af helstu smellum bandarísku sveitarinnar Grateful Dead, er látinn, 78 ára að aldri. Í yfirlýsingu frá fjölskyldu Hunter segir að hann hafi andast á heimili sínu í faðmi fjölskyldu á mánudaginn.

Hunter samdi texta við lög á borð við Truckin‘, Uncle John‘s band, Box of rain og Ripple. Þrátt fyrir vera nær órjúfanlegur hluti sveitarinnar og að kunna á fjölda hljóðfæra – gítar, fiðlu, seló og trompet – kom hann aldrei fram á sviði með sveitinni.

„Ég tók mína ákvörðun. Ég prófaði það og það var ekki að virka fyrir mig,“ sagði Hunter í samtali við Guardian árið 2015.

Robert Hunter var góður vinur söngvara og forsprakka Grateful Dead, Jerry Garcia. Hann lést 1995. Hunter starfaði einnig á ferli sínum með tónlistarmönnum á borð við Bob Dylan, Elvis Costello, Bruce Hornsby og Jim Lauderdale.

Hunter gekk að eiga eiginkonu sína, Maureen, árið 1982 og eignuðust þau þrjú börn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.