Fótbolti

Blikar komnir áfram í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar eftir sigur í Prag

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Berglind Björg skoraði þrjú af fjórum mörkum Breiðabliks í einvíginu gegn Spörtu Prag.
Berglind Björg skoraði þrjú af fjórum mörkum Breiðabliks í einvíginu gegn Spörtu Prag. vísir/bára
Breiðablik er komið áfram í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu eftir útisigur á Spörtu Prag, 0-1. Blikar unnu fyrri leikinn á Kópavogsvelli, 3-2, og einvígið, 4-2 samanlagt.



Berglind Björg Þorvaldsdóttir, markadrottning Pepsi Max-deildar kvenna 2019, skoraði sigurmark Breiðabliks á 55. mínútu. Hún skoraði tvívegis í fyrri leiknum og skoraði því þrjú af fjórum mörkum Breiðabliks í einvíginu gegn Spörtu Prag.

Tékknesku meistararnir, sem eru fastagestir í Meistaradeildinni, sóttu stíft í fyrri hálfleik. Vörn Breiðabliks hafði í nógu að snúast og þá varði Ásta Vigdís Guðlaugsdóttir, sem stóð í marki Blika í stað Sonnýar Láru Þráinsdóttur, tvisvar vel.

Lucie Martínková komst næst því að skora fyrir Spörtu Prag þegar skalli hennar fór í stöngina á marki Breiðabliks á 38. mínútu.

Í upphafi seinni hálfleiks skoraði Sparta Prag en markið var dæmt af vegna rangstöðu.

Blikar sóttu í sig veðrið eftir þetta og á 55. mínútu skoraði Berglind Björg eftir sendingu Öglu Maríu Albertsdóttur.



Berglind Björg komst í dauðafæri á 63. mínútu en heimakonur björguðu á síðustu stundu. Tveir mínútum síðar skoraði Agla María en markið var dæmt af vegna brots.

Breiðablik var hársbreidd frá því að komast í 0-2 á 66. mínútu þegar Alexandra Jóhannsdóttir átti skot í slá.

Blikar vildu fá vítaspyrnu þegar Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir féll í vítateignum á 79. mínútu en ekkert var dæmt.

Fleiri urðu mörkin ekki og Blikar fögnuðu fræknum sigri og sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Dregið verður í 16-liða úrslitin á mánudaginn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×