Sport

Katrín Tanja heldur ræðu á ráðstefnu ESPN

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrín Tanja Davíðsdóttir.
Katrín Tanja Davíðsdóttir. Instagram/katrintanja
Íslenska CrossFit stjarnan Katrín Tanja Davíðsdóttir heldur áfram að vera í sviðsljósinu í bandarísku íþróttalífi en hún hefur átt heldur betur viðburðaríkt haust.

Katrín Tanja Davíðsdóttir var í toppbaráttunni á heimsleikunum í CrossFit í ágúst, gaf út bókina „Dóttir“ í haust, birtist nakin á síðum ESPN í Body Issue í byrjun september og nú síðast var það gert opinbert að Katrín Tanja mun halda ræðu á ESPN W Women + Sports fundinum í október.

ESPN W Women + Sports ráðstefnan um konur í íþróttum fer nú fram í tíunda sinn og má nálgast helstu upplýsingar um hana með því að smella hér.

Katrín Tanja verður þar í góðum hópi fyrirlestra eða með öðrum konum sem hafa látið til sín taka í bandarísku íþróttalífi. Meðal þeirra er Julie Foudy, fyrrum heimsmeistari með bandaríska fótboltalandsliðinu, WNBA-meistarinn og formaður leikmannasamtaka WNBA Nneka Ogwumike og Robin Roberts önnur af umsjónarmönnum sjónvarpsþáttarins Good Morning America.





Katrín Tanja mun halda fyrirlestur sinn mánudaginn 21. október næstkomandi en ráðstefnan fer fram á Newport Beach í Kaliforníu. Fyrirlestur Katrínar verður á fyrsta degi ráðstefnunnar sem mun alls taka þrjá daga.

Katrín Tanja verður síðan á pallborði með Becky Lynch og Monica Puig. Monica Puig varð Ólympíumeistari í tennis í Ríó 2016 en Becky Lynch er mjög þekkt fjölbragðaglímukona og ríkjandi WWE meistari.

Katrín er líka búin að gera margra ára samning við NOBULL en hún var eins og flestir vita fyrsti CrossFit íþróttamaðurinn sem fær að vera með í ESPN’s Body Issue. Frægð hennar eykst því með hverjum degi í Bandaríkjunum og virðist okkar kona vera fremst meðal jafningja þegar kemur að sýnileika bestu CrossFit kvenna heimsins í stærstu fjölmiðlunum Bandaríkjanna.

Hér fyrir neðan má sjá kappaksturskonuna Danica Patrick á ESPN Women ráðstefnunni fyrir ári síðan.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×