Skoðun

Öskrið í skóginum

Þórarinn Þórarinsson skrifar
Hversu ryðgaður ætli maður sé orðinn á sálinni þegar maður finnur sig knúinn til þess að sanna tilvist sína, ágæti og siðferðis- og vitsmunalega yfirburði fyrir sjálfum sér og öðrum með reglulegum upphrópunum og æðisköstum á samfélagsmiðlum?

Getur mögulega verið að lífið sé merkilegra og skemmtilegra en svo að ekki sé hægt að finna eitthvað innihaldsríkara til að æðrast yfir en mauksoðið og grátt grænmeti? Innflutt beljukjöt, skattsvik áhrifavalda, óð freðinna „fyrirmynda“ um ágæti fíkniefna, óverðskulduð ofurlaun landeyða og alla heimsins hörðu orkupakka frá einum upp sjötíu og sjö?

Taktfastur nettryllingur minnir mig stundum á Halla gamla sem vann með mér á bensínstöðinni. Eftir að úttaugaðir viðskiptaóvinir okkar höfðu lokið við að úða úr forarvilpum sálna sinna yfir varnarlausa verkamennina sagði hann bara: „Aumingja fólkið.“

Hlýtur að vera allt annað líf að vinna á bensínstöð eftir að Facebook kom til sögunar þótt við hefðum nú ekkert tekið djöfulganginn nærri okkur. Ekkert frekar en góð vinkona mín sem kemur reglulega við kaunin á alvitringakór allra heilagra þannig að hún er stundum tjörguð og fiðruð á samfélagsmiðlum.

Hún hefur nefnilega ekki hugmynd um þær nornabrennur vegna þess að hún hefur hreiðrað notalega um sig í 19. öldinni með Dickens og Tjækovskí þannig að hún heyrir ekki hávaðann frá þessum tannhjólum í vítisvélum vorra tíma.

Þessi ofsafengna og yfirlætisfulla síbylja er þegar allt kemur til alls ekkert merkilegri eða marktækari en tréð sem féll í mannlausa skóginum í vöggu vestrænnar menningar til forna og heyrist ekki ef maður heldur sig í öruggri fjarlægð.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×