Innlent

Bíl og yfir hundrað bíllyklum stolið frá Bílabúð Benna

Andri Eysteinsson skrifar
Rannsókn málsins er í fullum gangi
Rannsókn málsins er í fullum gangi Vísir
Þremur bílum, auk miklum fjölda bíllykla, var stolið frá bílasölu í Árbænum aðfaranótt föstudagsins 30. ágúst. Frá þessu greinir Ólafur Benediktsson, framkvæmdastjóri dekkjasviðs Bílabúðar Benna á Facebook síðunni Brask og brall.is þar sem hann óskar eftir aðstoð netverja við lausn málsins.

Valgarður Valgarðsson aðalvarðstjóri á lögreglustöðinni á Vínlandsleið staðfestir í samtali við Vísi að innbrotið hafi átt sér stað.

Valgarður segir að óprúttnir aðilar hafi brotist inn í skrifstofur bílasölunnar að Krókhálsi og tekið þar um 150-200 bíllykla. Einn bílanna sem í fyrstu var talið að hafi verið rænt fannst annars staðar á svæðinu að sögn Valgarðs. Benedikt Eyjólfsson hjá Bílabúð Benna segir í samtali við Vísi að bíllinn sem fannst hafi einfaldlega orðið bensínlaus. Hann segir þó mestu máli skipta að engum hafi orðið meint af.

Málið er í vinnslu og er verið að skoða þau gögn sem fyrir liggja að sögn Valgarðs. Öryggisgæsla Bílabúðar Benna á staðnum verður efld næstu daga á meðan að málið er rannsakað. Þá mun lögregla einnig fylgjast með svæðinu eins og kostur er.

Uppfært: Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu og Benedikt Eyjólfssyni hjá Bílabúð Benna hefur fyrirsögn fréttarinnar verið breytt. Einum bíl var stolið frá bílasölunni, gerð var tilraun til að stela öðrum en sá varð fljótt bensínlaus og fannst á plani bílasölunnar.

Færsla Ólafs á Facebook



Fleiri fréttir

Sjá meira


×