Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, ferðast með Guðlaugi Þór Þórðarsyni, núverandi utanríkisráðherra, í vinnuheimsókn í Grænlandi.
Össur er formaður starfshóps um aukin samskipti Íslands og Grænlands. „Ég tók að mér fyrir ríkisstjórnina, gegn betri vitund og öllum pólitískum prinsippum, að stýra þessum hópi sem á að bæta með bestum hætti samskipti Íslands og Grænlands vegna þess að það rímar við mína fortíð,“ segir Össur.
Guðlaugur Þór og Össur munu heimsækja ýmis fyrirtæki og sveitarfélög í suðurhluta Grænlands en þó nokkuð er um íslenskar fjárfestingar í þessum hluta landsins.
Guðlaugur Þór mun funda með Ane Lone Bagger sem fer með utanríkismál í Grænlensku landsstjórninni. Tvíhliða samskipti þjóðanna á sviði viðskipta og menningar og málefni norðurslóða eru meðal þess sem er á dagskrá fundarins. Össur gat ekki svarað því hvort ráðherrarnir muni ræða ummæli Donalds Trump Bandaríkjaforseta um kaup á Grænlandi.
„Ég get ekki talað fyrir ráðherrann en mér líst betur á að Grænlendingar kaupi Ameríku. Það er álíka raunhæft og þessi hugmynd Trumps, sem er eins og margt sem frá honum komi, dálítið skondin.“
Össur ferðast með utanríkisráðherra

Tengdar fréttir

Trump heldur Grænlandi í kastljósi heimspressunnar
Grænland baðar sig nú í kastljósi heimsfjölmiðlanna en Donald Trump Bandaríkjaforseti grínaðist með það í tísti að hann hygðist ekki reisa þar risastóran Trump-turn.

Hættir við heimsókn til Danmerkur því hann fær ekki að kaupa Grænland
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, fær ekki að kaupa Grænland. Þess vegna hættir hann við opinbera heimsókn til Danmerkur