Erlent

Skjöl sýna hvernig Face­book gerði lítið úr á­hyggjum vegna Cam­brid­ge Analyti­ca

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Mark Zuckerberg er stofnandi og forstjóri Facebook. Hér sést hann koma fyrir þingnefnd í Bandaríkjunum vegna rannsóknar á Cambridge Analytica-skandalnum.
Mark Zuckerberg er stofnandi og forstjóri Facebook. Hér sést hann koma fyrir þingnefnd í Bandaríkjunum vegna rannsóknar á Cambridge Analytica-skandalnum. vísir/getty
Skjöl þar sem sjá má samskipti á milli starfsmanna samfélagsmiðlarisans Facebook á haustmánuðum 2015 sýna hvernig gert var lítið úr áhyggjum þar innanhúss vegna greiningarfyrirtækisins Cambridge Analytica.

Cambridge Analytica komst ólöglega yfir persónuupplýsingar frá tugum milljóna notenda Facebook og notaði þær meðal annars til þess að beina tilteknum auglýsingum að tilteknum hópum í kosningabaráttu Donalds Trump, Bandaríkjaforseta.

Fjallað er um samskipti starfsmanna Facebook á vef Guardian en blaðið afhjúpaði ólöglegar aðferðir Cambridge Analytica við gagnaöflun á Facebook í fyrra.

Blaðið greindi reyndar frá því í desember 2015 að Cambridge Analytica hefði safnað gögnum frá Facebook án samþykkis notenda í tengslum við kosningabaráttu Ted Cruz í forvali repúblikana fyrir forsetakosningarnar 2016.

Ted Cruz nýtti sér þjónustu Cambridge Analytica í forvali repúblikana árið 2015.vísir/getty

Vildi fá upplýsingar um hvaða reglur giltu um gagnasöfnun pólitískra ráðgjafafyrirtækja

Það var þó ekki fyrr en í mars á þessu ári sem stjórnendur Facebook viðurkenndu að sumir starfsmenn fyrirtækisins hefðu á haustmánuðum 2015 lýst áhyggjum sínum vegna þess sem þeir töldu óviðeigandi gagnasöfnun Cambridge Analytica í gegnum Facebook.

Það var saksóknarinn í Washington D.C. sem fór fram á að fá skjölin með samskiptum starfsmannanna afhent í tengslum við málsókn á hendur Facebook vegna Cambridge Analytica-skandalsins.

Samskiptin hófust þann 22. september 2015. Þá krefst einn starfsmaður Facebook þess að fá nánari upplýsingar um það hvaða reglur gilda innan fyrirtækisins um pólitísk ráðgjafafyrirtæki sem voru að nota gögn frá notendum Facebook í kosningabaráttum.

Alexander Nix var forstjóri Cambridge Analytica.vísir/getty

Cambridge Analytica stærst og öflugast

„Okkur grunar að mörg þessara fyrirtækja séu í svipaðri gagnasöfnun, það stærsta og öflugasta hjá íhaldsmönnum er Cambridge Analytica… ófullkomið (vægt til orða tekið) fyrirtæki sem hefur grafið sig djúpt inn á okkar markað,“ segir í tölvupóstinum.

Enginn virðist hafa svarað þessu í heila viku og því var sendur ítrekunarpóstur þar sem fram kemur að greiningarfyrirtækin séu að spyrjast fyrir um hvað megi og hvað megi ekki.

Þá hefst umræða á meðal starfsmannanna og segir einn að líklegast sé þessi gagnaöflun ekki í samræmi við reglur Facebook. Það sé þó erfitt að segja til um það án þess að vita nánar hvernig Cambridge Analytica er að notfæra sér Facebook.

Annar segir á móti að afar ólíklegt sé að greiningarfyrirtækin séu að brjóta einhverjar reglur Facebook. Fyrirtækið ætti ekki að vera að setja sig í samband við greiningarfyrirtækin nema það séu einhver hættumerki.

„Getið þið hraðað skoðun ykkar á Cambridge Analytica?“

Samskiptin deyja svo út en starfsmennirnir taka aftur upp þráðinn eftir að Guardian fjallar um Cambridge Analytica, Facebook og kosningabaráttu Ted Cruz í desember 2015.

„Getið þið hraðað skoðun ykkar á Cambridge Analytica eða að minnsta kosti sagt okkuar hver næstu skref eru? Því miður er þetta fyrirtæki núna orðið að PR-máli þar sem þessi frétt er á forsíðu á vef Guardian,“ skrifar einn starfsmaður í tölvupósti.

Annar skrifar:

„Hæ allir, þetta er aðalforgangsmálið núna. Þessi frétt var að koma í Guardian og aðrir fjölmiðlar eru byrjaðir að spyrjast fyrir. Við þurfum að finna út úr þessu eins fljótt og hægt er.“

Aðstoðarforstjóri Facebook vill meina að ekkert nýtt komi fram í skjölunum.vísir/getty

Segir ekkert nýtt koma fram í skjölunum

Í bloggfærslu sem aðstoðarforstjóri Facebook, Paul Grewal, ritaði í dag sagði hann að skjölin sem saksóknarinn í Washington D.C. hefði opinberað í dag gætu valdið misskilningi.

Vill hann meina að ekkert nýtt komi fram í skjölunum. Starfsmenn hafi aðeins verið að ræða sín á milli um orðróm sem kom frá keppinauti Cambridge Analytica um að greiningarfyrirtækið væri að taka til sín gögn.

Verkfræðingur hjá Facebook hafi kannað málið og ekki fundið nein merki um að slíkt væri í gagni.

„Okkur urðu á mistök með Cambridge Analytica og við höfum unnið hörðum höndum að því að laga þau. Við höfum lært heilmikið og sá lærdómur gerir okkur að betra fyrirtæki í framtíðinni,“ segir í færslu Grewal.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×