Erlent

Ræða um skógareldana í Amason á G7-fundinum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Merkel og Macron í París í nóvember síðastliðnum.
Merkel og Macron í París í nóvember síðastliðnum. Nordicphotos/Getty
Leiðtogar Frakka og Þjóðverja tjáðu sig báðir í gær um þann metfjölda skógarelda sem hafa geisað í Amasonfrumskóginum í Brasilíu á árinu. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sagði að þetta þyrfti að ræða á fundi G7-ríkjanna um helgina. Algjört neyðarástand hefði skapast.

Tók Merkel þannig undir með Emmanuel Macron Frakklandsforseta. „Húsið okkar er að brenna. Bókstaflega. Amasonfrumskógurinn, lungun sem framleiða fimmtung af súrefni jarðar, er alelda,“ sagði Frakkinn.

Og Antonio Guterres, framkvæmdastjóri SÞ, er á sama máli. „Nú þegar við göngum í gegnum hnattræna loftslagskrísu höfum við ekki efni á því að slík auðlind súrefnis og fjölbreytts lífríkis skaðist meira.“

Öfgaíhaldsmaðurinn Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, sagði ákall um að málið skyldi ræða á fundinum litast af nýlenduhyggju. Hann hefur sagt mögulegt að alþjóðleg samtök beri ábyrgð á eldunum til að koma óorði á stjórn sína en gengist við því að fyrir því séu engar sannanir. Á fimmtudag sagði hann svo, samkvæmt BBC, að bændur gætu verið að kveikja í skóginum til að rýma land.

CNN hafði eftir leiðtogum umhverfisverndarsamtaka og rannsakendum í gær að mannfólk hefði kveikt meirihluta elda ársins. Haley Brink, veðurfræðingur CNN, sagði líklegast að nautgripabændur hefðu kveikt í til að fá meira beitiland. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×