„Heilt yfir hefur þetta gengið ágætlega,“ segir Guðmundur Heiðar, upplýsingafulltrúi Strætó, í samtali við Vísi. Hann segir mikið álag hafa verið í dag enda mikið um að vera víða í Reykjavík.
Stærsti dagur ársins hjá Strætó fer vel af stað. Nýtingin á vögnunum er mjög góð og stjórnstöð hefur vart undan við að setja aukavagna inn á þær leiðir sem fyllast. Gott er að hafa í huga að ef það er ekki pláss í vagninum, þá ætti næsti aukavagn ekki að vera langt undan.
— Strætó (@straetobs) August 24, 2019
Margir hafa nýtt sér þjónustu Strætó til þess að koma sér niður í miðbæ, enda öllu fljótlegra en að þurfa að leita að lausum bílastæðum á einum fjölsóttasta degi miðbæjarins.
Sjá einnig: Um tvö hundruð viðburðir á Menningarnótt
Hann segir fólk ekki þurfa að bíða lengi eftir aukabíl ef leiðir eru fullar. Sem dæmi má nefna að leið 1 er farin að ganga á tíu mínútna fresti. Að sögn Guðmundar er því vissulega brjálað að gera, en það er aldrei langt í næsta bíl.
Flestar götur miðbæjarins hafa verið lokaðar frá því klukkan sjö í morgun en strætisvagnar munu fara frá Hlemmi upp Snorrabraut, Eiríksgötu og Hallgrímskirkju. Þá er fólk hvatt til þess að kynna sér götulokanir.
