Erlent

Telja matar-, eldsneytis- og lyfjaskort líklegan eftir Brexit án samnings

Kjartan Kjartansson skrifar
Brexit án samnings er talið líklegt til að raska verulega bresku samfélagi.
Brexit án samnings er talið líklegt til að raska verulega bresku samfélagi. Vísir/EPA
Bretland stæði frammi fyrir skorti á matvælum, eldsneyti og lyfjum gengi það úr Evrópusambandsins án útgöngusamnings. Öngþveiti gæti skapast við leiðir inn í landið og setja þyrfti upp hefðbundin landamæri á Írlandi. Þetta kemur fram í úttekt breska stjórnarráðsins sem lekið var til blaðsins Sunday Times.

Þetta eru taldar líklegustu skammtímaafleiðingar útgöngu án samnings, ekki versta sviðsmyndin, að sögn blaðsins. Ríkisstjórnin telur að allt 85% flutningabíla sem keyra undir Ermarsund séu ekki tilbúnir fyrir tollaeftirlit í Frakkland. Öngþveiti gæti þannig skapast við inngönguleiðir til Bretlands. Allt að þrjá mánuði gæti tekið að greiða úr umferðinni inn í landið.

Þá komast höfundar úttektarinnar að þeirri niðurstöðu að óraunhæft sé að forðast almennt landamæra- og tollaeftirlit á mörkum Írlands og Norður-Írlands. Setja verði upp hörð landamæri þar á milli, að því er kemur fram í frétt Reuters.

Times segir að skjalið sé flokkað sem leynilegt og að í því felist yfirgripsmesta úttekt á viðbúnaði Bretlands fyrir útgöngu án samnings sem sést hefur.

Eins og er eiga Bretar að ganga úr Evrópusambandinu 31. október. Boris Johnson, forsætisráðherra, hefur sagt að af útgöngunni verði sama hvort samið verður við sambandið um skilmálana upp á nýtt eða ekki.


Tengdar fréttir

Johnson sakar andstæðinga Brexit um samvinnu við ESB

Forsætisráðherra Bretlands sakar Evrópusambandið um óbilgirni. Á meðan segir forseti neðri deildar Bandaríkjaþings að Bretar fái ekki fríverslunarsamning eftir Brexit nema friður á Írlandi sé tryggður.

Reyna að stoppa Boris Johnson fyrir dómi

Skoskur dómstóll mun í næsta mánuði taka fyrir mál sem um sjötíu stjórnarandstöðuþingmenn hafa höfðað í von um að dómstóllinn úrskurði að Boris Johnson forsætisráðherra megi ekki slíta þingi til þess að ganga út úr Evrópusambandinu án samnings.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×