Erlent

Sat föst í bíl sínum í sex daga eftir bílveltu

Sylvía Hall skrifar
Bastide sat föst í bílnum í sex daga.
Bastide sat föst í bílnum í sex daga. samsett/AP
Bíll hinnar 45 ára gömlu Corine Bastide endaði utanvegar og valt í skóglendi rétt fyrir utan borgina Liege í Belgíu í síðustu viku. Bílinn endaði á hvolfi og sat hún föst í bílnum í sex daga eftir slysið.

Að sögn Bastide hringdi síminn hennar stanslaust fyrstu nóttina. Hún reyndi að ná í hann en var of verkjuð til þess að hreyfa sig eftir slysið. Daginn eftir hætti síminn svo að hringja og þá vissi hún að rafhlaðan var tóm.

„Ég reyndi að öskra þegar ég heyrði í fólki en það heyrði greinilega enginn í mér,“ sagði Bastide í samtali við ríkisfjölmiðilinn.

Á sama tíma reið hitabylgja yfir landið og fór hitinn hæst yfir fjörutíu gráður. Hún náði að halda í sér lífinu með því að drekka vatnsflöskur sem hún hafði safnað og geymt í bíl sínum eftir að stormur reið yfir svæðið.

„Hitinn var kæfandi í fyrstu. Ég náði að opna hurð með fætinum. Svo fór að rigna yfir helgina og það var gott. Á hinn bóginn þurfti ég að sofa í vatni í tvær nætur. Mér var kalt og ég skalf allan tímann,“ segir hún og bætir við að það hafi verið erfiðast að liggja á brotnu gleri.

Vinir fjölskyldu Bastide komu auga á bíl hennar þegar þeir voru að dreifa auglýsingum þar sem lýst var eftir henni. Þeir gerðu lögreglu viðvart sem bjargaði Bastide úr bílflakinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×