Innlent

Bandaríski herinn og NATO áætla að setja 14 milljarða í framkvæmdir hér á landi

Eiður Þór Árnason skrifar
Um er að ræða uppfærslu á ratsjárkerfum NATO ásamt viðhaldi og uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli.
Um er að ræða uppfærslu á ratsjárkerfum NATO ásamt viðhaldi og uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli. Fréttablaðið/Eyþór
Áætlað er að bandaríski herinn og Atlantshafsbandalagið muni verja tæpum 14 milljörðum króna á næstu árum vegna uppbyggingar og viðhalds á varnarmannvirkjum hér á landi. Fréttastofa RÚV greinir frá þessu.

Þar á meðal er viðhald á vegum NATO fyrir 4,5 milljarða króna. Einnig er gert ráð fyrir töluverðum framkvæmdum á Keflavíkurflugvelli.

Í auglýsingu um útboð sem bandarísk yfirvöld birtu í dag kemur fram að til stendur að stækka flughlað innan öryggissvæðisins, reisa færanlegar gistieiningar og færa flughlað fyrir hættulegan farm. Kostnaðaráætlun framkvæmdanna nemur rúmum sex milljörðum íslenskra króna.

Þessi framkvæmd verður alfarið fjármögnuð af bandaríska ríkinu. Aðeins verður samið um hönnun- og framkvæmd verksins við íslensk eða bandarísk fyrirtæki og þurfa þau að skrá sig í gagnagrunn bandarískra yfirvalda til að geta tekið þátt í útboðsferlinu. Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu stendur til að framkvæmdir hefjist á næsta ári og ljúki árið 2023.

Í frétt RÚV kemur jafnframt fram að nú þegar sé búið að ganga að tilboði íslenskra verktaka í framkvæmdir á vegum hersins fyrir þrjá milljarða króna. Gert er ráð fyrir því að íslensk stjórnvöld setji alls 400 milljónir króna í framkvæmdir á vegum NATO á næstu árum.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×