Erlent

Sánchez hafnað í spænska þinginu

Kjartan Kjartansson skrifar
Blaðaljósmyndarar þyrptust um Sánchez í þingsal fyrir atkvæðagreiðsluna sem hann tapaði í dag.
Blaðaljósmyndarar þyrptust um Sánchez í þingsal fyrir atkvæðagreiðsluna sem hann tapaði í dag. Vísir/EPA
Spænska þingið hafnaði Pedro Sánchez, leiðtoga Sósíalistaflokksins, sem forsætisráðherra í atkvæðagreiðslu í dag. Stjórnarmyndunarviðræður sósíalista við vinstriflokkinn Sameinaðar getum við hafa ekki borið árangur og hafa líkurnar á fjórðu þingkosningunum á jafnmörgum árum aukist.

Aðeins þingmenn Sósíalistaflokksins auk eins þingmanns frá Kantabríu greiddu atkvæði með því að lýsa trausti á Sánchez sem hefur verið starfandi forsætisráðherra undanfarna mánuði. Flokkur fékk flest þingsæti í þingkosningunum í apríl en náði ekki hreinum meirihluta.

Hvorki hefur gengið né rekið í viðræðum vinstriflokkanna tveggja um stjórnarmyndun. Þrátt fyrir að Sánchez hafi formlega fram í september til að klambra saman nýrri ríkisstjórn hafa sósíalistar sagt að þeir ætli að gefa viðræðurnar við Sameinaðar getum við upp á bátinn náist ekki samkomulag fyrir lok þessa mánaðar.

„Ég vil vera forsætisráðherra Spánar en ekki sama hvað það kostar,“ sagði Sánchez þegar hann gerði þingmönnum grein fyrir að viðræðurnar hefðu engu skilað.

Fari stjórnarmyndunartilraunirnar út um þúfur verður kosið aftur til þings 10. nóvember og yrðu það fjórðu kosningarnar á fjórum árum, að sögn Reuters-fréttastofunnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×