Erlent

Hæstiréttur heimilar Trump að nota ríkisfé í múrinn

Sylvía Hall skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Nordicphotos/AFP
Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur greitt veginn fyrir uppbyggingu hins umdeilda múrs sem Donald Trump Bandaríkjaforseti vill reisa á landamærum landsins og Mexíkó. Þetta varð ljóst nú fyrir skömmu.

Um er að ræða 2,5 milljarða Bandaríkjadala sem úthlutað var til varnarmálaráðuneytisins. Er talið að fyrstu skref í útgjöldum munu fara í að skipta út girðingum sem nú þegar eru til staðar í Arizona, Kaliforníu og Nýju-Mexíkó.

Með þessu var frystingu fjármunanna aflétt sem lægra dómstig í landinu hafði áður sett á í maí. Var niðurstaða þess dóms sú að ríkisstjórn Trump væri ekki heimilt að nýta féð í múrinn þar sem þingið hafði ekki úthlutað því beint til þess verkefnis.

Samkvæmt Reuters var dómurinn klofinn í málinu. Fimm dómarar dæmdu Trump í vil, fjórir voru mótfallnir. Með þessum dómi er Trump og hans ríkisstjórn því heimilt að nýta fjármunina og hefja byggingarvinnu.

Trump fagnaði niðurstöðunni á Twitter-síðu sinni og sagði hana vera „stórsigur“ fyrir landamæraöryggi og lög í landinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×