Lík bandarísks sameindalíffræðings sem hafði verið saknað í rúma viku fannst í skotbyrgi úr síðari heimsstyrjöldinni á grísku eyjunni Krít. Lögreglan segir að konan hafi kafnað og rannsakar dauða hennar sem glæp.
Ekkert hafði spurst til Suzanne Eaton, sameindalíffræðings frá Max Planck-stofnuninni í Þýskalandi, frá því að hún fór út að hlaupa 2. júlí. Eaton var á Krít vegna ráðstefnu.
Breska ríkisútvarpið BBC segir að lík Eaton, sem var 59 ára gömul hafi fundist í skotbyrgi sem nasistar grófu þegar þeir hernumu Krít í síðari heimsstyrjöldinni, um tíu kílómetrum frá þeim stað sem hún sást síðast. Tveir heimamenn gengu fram á lík hennar.
Rannsóknin beinist meðal annars að því hvort að Eaton hafi verið myrt í skotbyrginu eða hvort að lík hennar hafi verið flutt þangað eftir að hún var drepin. Eaton var gift og skilur eftir sig tvo syni.

