Erlent

Tyrkir setja upp rúss­neskt varnar­kerfi þrátt fyrir hótanir Banda­ríkjanna

Eiður Þór Árnason skrifar
Rússneska þotan sem er sögð hafa flutt umrædda sendingu. Bandaríkin krefjast þess að bandarísku F-35 þoturnar fái ekki að standa nálægt nýja eldflaugavarnarkerfinu.
Rússneska þotan sem er sögð hafa flutt umrædda sendingu. Bandaríkin krefjast þess að bandarísku F-35 þoturnar fái ekki að standa nálægt nýja eldflaugavarnarkerfinu. Vísir/AP
Tyrkland tók í dag á móti fyrsta hluta rússnesks eldflaugavarnarkerfis sem það áætlar að setja upp innan landamæra sinna, þvert á vilja Bandaríkjamanna.

Sendingin, sem lenti á herflugstöð nálægt höfuðborginni Ankara, er sögð innihalda fyrsta hlutann af rússnesku S-400 eldflaugavarnarkerfi sem stjórnvöld í Tyrklandi hafa fest kaup á. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá tyrkneska varnarmálaráðuneytinu.

Bandarísk yfirvöld hafa áður varað við því að þau gætu gripið til efnahagsþvingana gagnvart ríkinu ef kaupin á rússneska kerfinu færu fram.

Samband Tyrklands við Bandaríkin og Evrópuríki hefur stirðnað að undanförnu, jafnt sem landið hefur aukið tengsl sín við Rússland á sviði varnarmála. Ásamt því að hafa fest kaup á umræddu eldflaugavarnarkerfi hafa Tyrkir einnig sent hluta af herafla sínum til þjálfunar í Rússlandi.

Tyrkland er meðlimur í Atlantshafsbandalaginu NATO og náinn bandamaður Bandaríkjamanna. Yfirvöld í Tyrklandi hafa áður fest kaup á hundrað bandarískum F-35 herþotum, og hafa bandarísk yfirvöld gefið út að Tyrkland geti ekki bæði búið yfir bandarísku þotunum og rússneska eldflaugavarnarkerfinu.

Tyrkneski herinn er sá næst stærsti innan NATO, og hefur ríkið löngum verið verðmætur bandamaður Bandaríkjanna í ljósi þess að það deilir landamærum með Sýrlandi, Írak og Íran.


Tengdar fréttir

Erdogan skiptir út seðlabankastjóranum

Forseti Tyrklands, Receep Tayyip Erdogan, hefur ákveðið að breytinga sé þörf innan seðlabanka landsins og hefur vikið seðlabankastjóranum Murat Cetinkaya úr starfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×