Lögreglu var tilkynnt um reiðhjólaslys í Laugardalnum á ellefta tímanum í gærkvöldi. Þar var par að hjóla og duttu bæði karlinn og konan af hjólum sínum. Konan meiddist á öxl eftir fallið og var flutt með sjúkrabifreið til aðhlynningar á slysadeild, að því er fram kemur í dagbók lögreglu.
Á ellefta tímanum voru höfð afskipti af ofurölvi manni í Vesturbænum. Maðurinn var vistaður sökum ástands í fangageymslu lögreglu.
Þá hafði lögregla í tvígang afskipti af mönnum vegna þjófnaðar. Í fyrra skiptið voru höfð afskipti af manni í verslun í Breiðholti rétt fyrir klukkan sex í gær. Hann er grunaður um þjófnað.
Þá var lögregla kölluð út skömmu eftir klukkan sex í verslunarmiðstöð í Kópavogi vegna tveggja manna sem einnig eru grunaðir um þjófnað.
Á áttunda tímanum var tilkynnt um umferðaróhapp í Árbæ. Þar varð árekstur milli bifreiðar og vespu. Farþegi á vespunni datt í götuna en meiðsl minniháttar. Viðkomandi var ekki með hjálm á höfði við aksturinn.
Flutt á slysadeild eftir reiðhjólaslys í Laugardal
Kristín Ólafsdóttir skrifar
