Skoðun

Til hagsbóta fyrir neytendur

Kristján Þór Júlíusson skrifar
Í kjölfar undirritunar nýs tollasamnings milli Íslands og Evrópusambandsins árið 2015 var fyrirséð að svokallaðir tollkvótar myndu stækka umtalsvert. Með því var stigið skref í að auka tollfrjálsan innflutning á tilteknum landbúnaðarvörum.

Tollkvótar eru í eðli sínu ávísun á takmörkuð verðmæti og hefur eftirspurn eftir þeim aukist á síðastliðnum árum. Gildandi regluverk við þá úthlutun er með þeim hætti að tollkvótarnir eru boðnir út og þeim úthlutað til hæstbjóðenda. Þessi gjaldtaka hefur skapað ríkinu nokkrar tekjur en á sama tíma hefur fyrirkomulagið leitt til hærra vöruverðs fyrir neytendur, þvert á tilgang þess sem að baki samningsins liggur.

Ég tel þetta fyrirkomulag við úthlutun tollkvóta óeðlilegt og ósanngjarnt. Því skipaði ég í júní í fyrra starfshóp sem hafði það hlutverk að endurskoða þetta fyrirkomulag og finna leiðir til þess að koma ávinningnum sem skapast með þessum takmörkuðu gæðum í meiri mæli til neytenda í formi lægra vöruverðs. Hópurinn skilaði skýrslu í upphafi þessa árs en í honum áttu sæti fulltrúar neytenda, bænda, verslunar og stjórnvalda.

Nú hefur frumvarp verið birt á samráðsgátt stjórnvalda sem byggir á tillögum hópsins. Þar er lagt til að tollkvótum verði úthlutað með því að styðjast við svokallað hollenskt útboð (e. Dutch auction). Í því felst að lægsta samþykkta tilboð útboðs ákvarði verð allra samþykktra tilboða. Jafnframt er lagt til að umsýsla og úthlutun tollkvóta verði nútímavædd og fari fram á rafrænu vefsvæði og að allir tollkvótar verði boðnir út á sama tíma. Einnig má nefna þá breytingu að heimildir fyrir innflutning á svokölluðum opnum tollkvótum verði afnumdar í núverandi mynd og þar með verði ráðgjafarnefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara lögð niður.

Ég bind vonir við að framangreindar breytingar leiði til þess að kostnaður vegna útboða tollkvóta lækki talsvert. En einnig, og það skiptir mestu: Að neytendur njóti aukinnar samkeppni í formi vöruúrvals og lægra vöruverðs. Þá verði allt regluverk um úthlutun tollkvóta sanngjarnara og einfaldara til hagsbóta fyrir alla hlutaðeigandi.

Höfundur er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×