Skoðun

Bjart er yfir Bjargi!

Gunnar Alexander Ólafsson skrifar
Fyrir nokkru gerðist sá ánægjulegi atburður að fyrsti leigjandinn flutti inn í nýtt fjölbýlishús sem íbúðafélagið Bjarg reisti í Grafavogi. Þar með hófst bylting í húsnæðismálum sem vonandi sér ekki fyrir endann á. Allt of lengi hefur verið við lýði lögmál villta vesturs á leigumarkaði og markvisst hefur verið unnið gegn félagslegum lausnum á húsnæðismarkaði. Nægir þar að nefna að á sínum tíma var verkamannahúsnæðiskerfið lagt niður. Auk þess má nefna leigufélagið Klett sem leigði út eignir Íbúða­lánasjóðs á félagslegum grunni, til fólks á viðráðanlegu verði og til langs tíma. Leigufélagið Klettur tryggði þúsundum fjölskyldna húsnæðisöryggi um tíma en einn lélegasti félagsmálaráðherra sem verið hefur seldi leigufélagið til leigufélags í eigu Gamma. Þetta leiddi til þess að gildistímar leigusamninga voru styttir og leigan hækkaði um tugi prósenta á milli ára!

Bjarg, sem er í eigu ASÍ og BSRB, er stofnað með félagslegri hugsun sem virkjar stéttarfélögin til að leita húsnæðislausna fyrir sína félagsmenn.

Bjarg er með stórtæk áform á prjónunum um að reisa fjölbýlishús í Reykjavík, Akranesi, Akureyri, Selfossi, Þorlákshöfn og Hafnarfirði með allt að 1.000 íbúðum á næstu þrem árum! Bjarg var stofnað til að mæta mikilli þörf á húsnæðismarkaði sem ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Bjarna Benediktssonar töldu markaðinn eiga að leysa með GAMMA væðingu á félagslegum leigufélögum. Bjarg hefur leitað til allra sveitarfélaga um samstarf og vekur það undrun að stór sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu eins og Kópavogur og Mosfellsbær hafa ekki fagnað boði Bjargs um samstarf og úthlutað Bjargi lóðir til uppbyggingar.

Það er ánægjulegt að ASÍ og BSRB hafi staðið að stofnun Bjargs og þannig stuðlað að stórfelldri félagslegri húsnæðisuppbyggingu fyrir félagsmenn sína til að tryggja þeim öruggt húsnæði til langs tíma á viðráðanlegu verði. Það er ný nálgun í húsnæðismálum á Íslandi.

Höfundur er heilsuhag­fræðingur




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×