Embætti héraðssaksóknara hefur gefið út ákærur á hendur fjórum systkinum sem kennd hafa verið við útgerðarfélagið Sjólaskip. Systkinin eru ákærð hvert í sínu lagi auk þess sem bræðurnir eru ákærðir saman í einu máli. Ákærurnar tengjast meintum skattalagabrotum systkinanna. RÚV greindi fyrst frá málinu í dag.
Töluvert hefur verið fjallað um mál systkinanna, þeirra Guðmundar Steinars Jónssonar, Haraldar Reynis Jónssonar, Ragnheiðar Jónu Jónsdóttur og Berglindar Bjarkar Jónsdóttur, í fjölmiðlum undanfarin ár.
Sjá einnig: Tugir íslenskra sjómanna kærðir fyrir skattsvik
Þannig greindi Fréttatíminn frá því í nóvember árið 2016 að skattrannsóknarstjóri hefði kært viðskipti systkinanna í skattaskjólinu Tortólu til héraðssaksóknara. Í frétt blaðsins kom m.a. fram að aflandsfélögin á Tortólu hefðu verið notuð til að greiða kreditkortareikninga fjölskyldumeðlima.
Í frétt Fréttatímans og Reykjavík Media frá því í október 2016 kemur jafnframt fram að Sjólaskip hafi átt útgerð á Kanaríeyjum sem fyrirtækið seldi Samherja árið 2007 fyrir nokkra milljarða króna. Nöfn systkinanna fjögurra sem eru ákærð nú var enn fremur að finna í Panamaskjölunum svokölluðu frá Mossack Fonseca.
Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari segir í samtali við Vísi að hann geti ekki tjáð sig um efni ákæranna þar sem þær hafi ekki verið birtar systkinunum. Aðspurður segir hann málið hafa verið töluverðan tíma til rannsóknar hjá embættinu og eins hjá skattayfirvöldum.
Ákærurnar verða þingfestar í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 28. ágúst næstkomandi, samkvæmt dagskrá á vef dómstólanna.
