Skoðun

Herrar mínir og frúr

Haukur Örn Birgisson skrifar
Nokkur starfsheiti bera merki þess að annað kynið hafi aðallega sinnt störfunum frekar en hitt. Að minnsta kosti í upphafi. Hjúkrunarkona, ljósmóðir, pípulagningamaður, alþingismaður, flugmaður, flugfreyja og sjómaður. Svona mætti lengi telja.

Þar sem konur eru líka menn, þá er kannski ekki galið að kvenfólk kallist „þingmenn“ og „formenn“ í stað „þingkvenna“ og „forkvenna“. Ég er hins vegar ekki viss um að sömu lögmál gildi ef hlutverkunum yrði snúið við. Karlmenn kunna því ekkert sérstaklega vel að vera kallaðir konur.

Á tímum jafnréttis hefur algjör kynjasnúningur orðið innan margra starfsstétta, reyndar aðallega í aðra áttina. Ég las það til dæmis í fréttum um daginn að konur skipa nú í fyrsta sinn fleiri íslenskar sendiherrastöður en karlar. Það er hið besta mál. Þess þarf ekki lengi að bíða að konur verði einnig komnar í meirihluta í ríkisstjórn.

Ég er spenntur að sjá hvað gerist innan stjórnsýslunnar, því það er eitthvað skrítið við að kalla konur „herra“. Þótt konur séu líka menn þá eru þær varla svo miklir menn að rétt sé að kalla þær herra. Ráðherra og sendiherra eru því algjörlega galin starfsheiti, ef út í það er farið. Er ekki réttara, svona í ljósi þess að meirihluti sendiherra og ráðherra verður konur, að breyta viðskeytinu? Forsætisráðfrúin Katrín Jakobsdóttir mun þannig leiða ríkisstjórnina með Bjarna Benediktsson, fjármálaráðfrú, sér við hlið. Í öllum íslensku sendiráðunum munu sendifrúr af báðum kynjum halda áfram að sinna erindagjörðum fyrir hönd íslenskrar alþýðu. Mig grunar að körlunum verði ekki skemmt en hvers hafa konurnar í þessum sömu störfum átt að gjalda undanfarna áratugi?




Skoðun

Sjá meira


×