Skoðun

Boris Kardashian

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Það er engin leið að sjá það fyrir hvað ríkisstjórn sem Boris Johnson kemur til með að leiða myndi gera, vegna þess að sá sem hyggst taka við stjórnartaumunum hefur ekki enn komist svo langt að velta því einu sinni fyrir sér sjálfur.

Svo komst Max Hastings, fyrrverandi ritstjóri þekktra dagblaða í Bretlandi, að orði í pistli í The Guardian í gær. Hastings var yfirmaður Johnsons og vandar fyrrverandi undirmanni sínum ekki kveðjurnar í harðorðri grein þar sem hann kallar Boris veikgeðja og popúlískan ólátabelg.

Nú eru tvær vikur þar til kjörseðlar berast flokksmönnum og næsti forsætisráðherra verður kynntur þann 22. júlí. Johnson er enn líklegasti arftaki Theresu May. Hann hefur þó ekki átt sjö dagana sæla eftir að fjölmiðlar komust á snoðir um að lögregla hafi verið kölluð að heimili hans og kærustu vegna háværs rifrildis. Fyrir það hefur hann ekki viljað svara opinberlega.

Kappræður tveggja sigurstranglegustu frambjóðendanna í leiðtogakjörinu áttu til að mynda að fara fram á Sky News í gær en ekki varð af því. Boris hafnaði því að taka þátt, þrátt fyrir áeggjan mótframbjóðandans sem biðlaði til Johnsons að „láta af heigulshætti sínum“ í grein í fyrradag. Allt kom fyrir ekki.

Nýja forsætisráðherrans bíður allt annað en öfundsvert hlutverk. Hann mun þurfa að vinna í hinu sama þingi og hefur hingað til engu hleypt í gegn. Möguleikarnir, fyrir og eftir Theresu May, eru þeir sömu: samningur um útgöngu, önnur atkvæðagreiðsla eða útganga án samnings – svokallað hart Brexit. Johnson lét hafa eftir sér í gær að útganga án samnings væri versta niðurstaðan. Með öðrum orðum hefur ekkert breyst í vonlausri stöðu þess sem þarf að leiða Bretland út úr Evrópusambandinu.

Í fyrrnefndum pistli Hastings segir hann Íhaldsflokkinn bera þunga sök í því að hafa hleypt óútreiknanlegum fúskara allt of nálægt Downing-stræti og fyrir það muni flokkurinn líða í næstu kosningum. Boris ætti betur heima í raunveruleikaþætti en á breska þinginu. Sennilega er það mergur málsins.

Ábyrgðin er nefnilega hans. Það voru Boris og félagar hans sem lugu öðru hverju orði í aðdraganda þjóðar­atkvæðagreiðslunnar 2016. Kannski er mátulegt á hann nú að taka við stólnum og um leið ábyrgðinni á uppdiktaðri draumsýn sem hann og félagar hans héldu að breskum almenningi.

Sennilega verður þetta enn annað dæmi þess að popúlisma gengur til skamms tíma að koma mönnum að kjötkötlunum. Meinið er að þegar þarf að fara að huga að efndum er staðan allt að því vonlaus.

Bretar eru þekktir fyrir skopskyn sitt – nú spyrja sumir hversu lengi þeir muni hafa húmor fyrir brandaranum sem er Boris Kardashian.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×