Innlent

Vöktu at­hygli á mann­réttinda­brotum í veislu banda­ríska sendi­ráðsins: „Þetta er gleð­skapur, ekki pólitískur við­burður“

Sylvía Hall skrifar
Óskar Steinn gat ekki hugsað sér að mæta í veisluna án þess að vekja athygli á ástandinu í Bandaríkjunum og fékk Ingu Björk með sér.
Óskar Steinn gat ekki hugsað sér að mæta í veisluna án þess að vekja athygli á ástandinu í Bandaríkjunum og fékk Ingu Björk með sér. ÓSkar Steinn
Óskar Steinn Jónínuson Ómarsson og Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir voru gestir í 4. júlí veislu bandaríska sendiráðsins á Hilton í dag. Þau nýttu þann vettvang til þess að dreifa upplýsingum um ofbeldi gegn transkonum þar í landi sem og ástandinu á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.

Í samtali við Vísi segist Óskar Steinn hafa fengið boð í veisluna en gat ekki hugsað sér að mæta í slíka veislu án þess að reyna að vekja athygli á því ástandi sem ríkir á landamærunum. Hann hafi því spurt Ingu Björk hvort hún vildi koma með sem hún þáði.

„Ég krotaði skilaboð á hvítan stuttermabol og prentaði út nokkur blöð þar sem var búið að taka saman nokkrar upplýsingar um aðstæðurnar í þsesum landamærabúðum. Hún prentaði út blöð með upplýsingum um transkonur sem hafa verið myrtar í Bandaríkjunum á þessu ári, sem eru rosalega margar,“ segir Óskar Steinn.

Hann segir umræðuna vera nátengdri þeirri þróun sem á sér stað út um allan heim, og þá sérstaklega í Bandaríkjunum, þar sem er verið að þrengja að réttindum transfólks. Þau hafi því ákveðið að nýta tækifærið og vekja fólk til umhugsunar.

Skilaboðin voru skýr og kallaði Óskar Steinn eftir því að ástandið á landamærunum yrði bætt.Óskar Steinn

Ein og hálf mínúta þar til starfsmaður stöðvaði þau

Óskar Steinn segir veislugesti hafa verið að mestu leyti áhrifafólk í stjórnmálum og í viðskiptalífinu. Þar hafi verið ráðherrar, sendiherrar og alþingismenn – fólk sem gæti haft áhrif á umræðuna hér heima.

Aðspurður segir hann veislugesti almennt hafa verið áhugasama um skilaboð þeirra og flestir hafi tekið vel í þau. Það leið þó ekki langur tími þar til starfsmaður hafi nálgast þau og beðið þau um að annaðhvort hætta að bera út skilaboðin eða yfirgefa svæðið.

„Það leið svona ein og hálf mínúta kannski, þá var einhver starfsmaður mættur og sagði mér að ég gæti annað hvort farið aftur í skyrtuna eða yfirgefið partýið,“ segir Óskar Steinn en hann hafði upphaflega mætt í skyrtu yfir bolinn svo skilaboðin sáust ekki við komuna.

Í færslu sem Óskar Steinn birti á Facebook-síðu sinni kallar hann eftir því að íslensk stjórnvöld séu vakandi fyrir stöðu mannréttinda í Bandaríkjunum og láti í sér heyra. Hann segist ekki hafa orðið var við nein viðbrögð hingað til.

„Ég hef ekki heyrt af neinum að beita sér. Ef að einhver er eitthvað að beita sér að þá er það allavega einhvers staðar fyrir luktum dyrum,“ segir Óskar Steinn sem gagnrýnir aðgerðaleysi stjórnvalda.

„Við sitjum í Mannréttindaráði Sameinuðu Þjóðanna og þar var forsætisráðherra að halda ræðu í dag. Hún var að tala um mikilvægt mál, réttindi kvenna, en það er hægt að nota svona glugga. Það að við sitjum í Mannréttindaráði SÞ hlýtur að gefa okkur ákveðið vægi en líka ákveðna ábyrgð að taka upp svona mál.“




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×