Kawhi Leonard, leikmaður nýkrýndra NBA-meistara Toronto Raptors, var valinn besti leikmaður (MVP) úrslitaeinvígisins sem lauk í gær. Toronto vann þá Golden State Warriors, 110-114, á útivelli og tryggði sér titilinn.
Þetta er í annað sinn sem Leonard fær þessa viðurkenningu en hann var valinn besti leikmaður úrslitanna þegar San Antonio Spurs varð meistari 2014.
Leonard komst þar með í ansi góðan hóp með Kareem Abdul-Jabbar og LeBron James. Þeir eru þeir einu í sögu NBA sem hafa verið valdir bestu leikmenn úrslita með tveimur liðum.
Abdul-Jabbar, sem gekk þá enn undir nafninu Lew Alcindor, var valinn bestur í úrslitunum þegar Milwaukee Bucks varð meistari 1971. Hann endurtók leikinn með Los Angeles Lakers 1985.
James var valinn bestur í úrslitunum þegar Miami Heat varð meistari 2012 og 2013. Hann var svo valinn bestur í úrslitunum þegar Cleveland Cavaliers varð meistari í fyrsta og eina sinn 2016.
James er einn fjögurra leikmanna sem hafa þrisvar sinnum verið valdir bestir í úrslitum NBA. Hinir eru Magic Johnson, Shaquille O'Neal og Tim Duncan. Michael Jordan á metið en hann var sex sinnum valinn besti leikmaður úrslitanna.
Leonard í hóp með Abdul-Jabbar og James

Tengdar fréttir

Fyrstu bræðurnir til að verða NBA-meistarar
Marc Gasol fetaði í fótspor eldri bróður síns, Pau, þegar Toronto Raptors varð NBA-meistari í nótt.

Sjáðu fagnaðarlætin hjá leikmönnum og stuðningsmönnum Toronto í nótt
Mögnuð stemning í nótt.

Toronto NBA-meistari í fyrsta sinn
NBA-tímabilinu er lokið.