Brasilíski knattspyrnumaðurinn Neymar hefur verið sakaður um að hafa nauðgað konu á hóteli í París. Neymar er á mála hjá franska liðinu Paris Saint-Germain.
Samkvæmt frétt BBC var kæran lögð fram til lögreglunnar í brasilísku borginni Sao Paulo en atvikið á þó að hafa átt sér stað í frönsku höfuðborginni. Neymar neitar ásökununum harðlega og talsmenn hans sendu frá sér tilkynningu þess efnis.
Samkvæmt gögnum lögreglu þá kynntist konan Neymar í gegnum samfélagsmiðilinn Instagram og hann stakk upp á því að þau myndu hittast í París.
Hann keypti flugmiða handa henni frá Brasilíu til Frakklands og bókaði herbergi á hóteli í París. Þegar Neymar kom á hótelherbergið var hann greinilega drukkinn samkvæmt frásögn konunnar, en atvikið á að hafa átt sér stað um miðjan maímánuð.
„Eftir spjall og faðmlög varð Neymar ágengur og með ofbeldi þvingaði kynmök gegn vilja fórnarlambsins,“ segir í lögregluskýrslunni.
Konan snéri aftur til Brasilíu án þess að kæra atvikið til franskra lögregluyfirvalda þar sem hún var í tilfinningalegu uppnámi og hrædd við að tilkynna atvikið til lögreglu í ókunnugu landi.
Neymar neitar ásökununum og faðir hans, Neymar dos Santos, sagði við brasilísku sjónvarpsstöðina Band TV að það væri klárt að þetta hafi verið gildra. Ef til þess komi þá séu þau tilbúin til þess að gera samskipti Neymar við konuna á WhatsApp opinber.
Neymar er um þessar mundir með brasilíska landsliðinu að undirbúa sig fyrir Suður-Ameríkukeppnina í fótbolta.
Fótbolti