Innlent

Vilja hreinar línur um hvort Laugarás sé í dreifbýli eða þéttbýli

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Anna Gréta Ólafsdóttir í Laugarási.
Anna Gréta Ólafsdóttir í Laugarási. Fréttablaðið/Valli
„Við viljum fá hrein svör frá sveitarfélaginu um hvort við séum skilgreind sem þéttbýli eða byggðakjarni þannig að það sé ekkert á reiki eftir því hvaða þjónustu er verið að veita hverju sinni,“ segir Anna Gréta Ólafsdóttir í Laugarási.

Anna Gréta, ásamt Sigurlaugu Angantýsdóttur, sendi Bláskógabyggð á dögunum bréf þar sem þær óska eftir því að skorið verði úr um það hvort Laugarás sé þéttbýli eða dreifbýli. Málið verður rætt á fundi sveitarstjórnar í Aratungu í dag.

„Þetta snýst aðallega um ljósleiðaravæðinguna. Þar erum við skilgreind sem þéttbýli en varðandi snjómokstur þá erum við skilgreind sem dreifbýli,“ segir Anna Gréta. „Samkvæmt ríkinu og Vegagerðinni erum við byggðakjarni eða dreifbýli en stundum þéttbýli gagnvart sveitarfélaginu.“

Aðspurð segir Anna Grét Bláskógabyggð ekki endilega beita mismunandi skilgreiningum á Laugarás til að þurfa að leggja til minni þjónustu. „Stundum held ég að við fáum jafnvel þjónustu eftir því hvort hentar betur,“ segir hún. Íbúarnir vilja hins vegar fá hreinar línur. „Það er hætta á geðþóttaákvörðunum ef þetta er eitthvað á reiki.“

Að sögn Önnu Grétu eru talsverðir fjármunir í húfi fyrir íbúa Laugaráss vegna ríkisstyrkja til ljósleiðaravæðingar innan sveitarfélagsins. Samkvæmt verkefninu hafi Bláskógabyggð gefið út að Laugarás sé þéttbýli en ekki byggðakjarni.

„Ríkið styrkir dreifbýli í ljósleiðaravæðingunni og svo borgum við aftur á móti rafmagn eins og við séum dreifbýli. Þannig að við borgum stundum meira af því að við erum ekki þéttbýli. En núna erum við skilgreind sem þéttbýli og borgum aftur meira,“ útskýrir Anna Gréta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×