Spár um hækkun yfirborðs sjávar sem finna má í skýrslum milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) hafa gert ráð fyrir að yfirborð sjávar hækki um rétt innan við metra vegna loftslagsbreytinga á þessari öld. Sjávarstaðan hækkar eftir því sem sjórinn þenst út þegar hann hlýnar og jöklar á landi bráðna.
Vísindamenn hafa þó um nokkurt skeið varað við því að þær spár séu of varfærnar. Ný rannsókn sem birtist í Tímariti bandarísku vísindaakademíunnar (PNAS) bendir til þess að hækkun yfirborðs sjávar geti orðið allt að tvöfalt meiri. Hún byggist á mati sérfræðinga á örlögum íshellnanna á Grænlandi og Suðurskautslandinu, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Haldi losun manna á gróðurhúsalofttegundum áfram á núverandi hraða megi búast við að yfirborð sjávar hækki um 62 til 238 sentímetra að meðaltali fyrir lok aldarinnar. Í þessar svörtustu sviðsmynd um framtíðarhlýnun upp á allt að fimm gráður gætu um 1,79 milljónir ferkílómetra lands sokkið í sæ.
Landsvæðin sem töpuðust yrðu þar að auki mikilvæg landbúnaðarsvæði eins og Nílarósar og stórir hlutar Bangladess. Vísindamennirnir vara við því að allt að tvö hundruð sinnum fleiri flóttamenn yrðu til við slíkar hörmungar en borgarastríðið í Sýrlandi hefur getið af sér.
Svartsýnasta spáin en möguleg ef ekkert verður að gert
Markmið Parísarsamkomulagsins er að halda hnattrænni hlýnun innan við 2°C og helst innan við 1,5°. Við efri mörkin telja vísindamenn að Grænlandsjökull verði helsta orsök hækkunar sjávarmáls af jöklum á landi. Verði hlýnunin meiri geti íshellurnar á Suðurskautslandinu orðið óstöðugar og hækkað sjávarstöðuna enn meira.Sjávarstaðan við Ísland er sérstaklega háð örlögum jökla á Suðurskautslandinu. Í vísindaskýrslu um áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi sem gefin var út í fyrra var gert ráð fyrir að hækkunin við Ísland yrði töluvert minni en að meðaltali á jörðinni, mögulega aðeins 30-40% af henni. Skekkjumörkin væru þó mikil, fyrst og fremst vegna óvissu um hvernig bráðnun jökla á Suðurskautslandinu myndi þróast á öldinni.
Líkurnar á dekkstu sviðsmyndinni sem dreginn er upp í nýju rannsókninni eru enn sem komið er sagðar litlar, eða um 5%.
„Ef ég segði við þig að líkurnar væru einn á móti tuttugu að þú yrði fyrir bíl ef þú færir yfir götuna þá færirðu hvergi nærri henni,“ segir Jonathan Bamber, prófessor við Bristol-háskóla og einn aðalhöfunda rannsóknarinnar.
Meðalhiti jarðar hefur þegar hækkað um eina gráðu frá því að iðnbyltingin hófst. Bruni manna á jarðefnaeldsneyti eins og kolum, olíu og gasi hefur verið meginuppspretta losunnar á gróðurhúsalofttegundunum sem valda hnattrænni hlýnun.