Innlent

Saga sumra þristanna gæti verið atriði úr spennumynd

Kristján Már Unnarsson skrifar
Þristurinn Liberty var eyðimerkurstríðinu í Norður-Afríku. Hann tók einnig þátt í innrásinni í Normandí og þurfti viðgerð vegna kúlnagata á skrokknum.
Þristurinn Liberty var eyðimerkurstríðinu í Norður-Afríku. Hann tók einnig þátt í innrásinni í Normandí og þurfti viðgerð vegna kúlnagata á skrokknum. Stöð 2/Baldur Hrafnkell Jónsson.
Flug gömlu stríðsvélanna um Reykjavíkurflugvöll gæti náð hápunkti á morgun. Ferð þeirra átta þrista, sem enn eru ókomnir, er að tefjast vegna ísingar í kringum Grænland, en nú standa vonir til að meirihluti þeirra komist til Íslands á morgun. Fjallað var meira um þristaleiðangurinn í fréttum Stöðvar 2.

Fyrir áhugamenn um flugsöguna hafa komur þristanna til Reykjavíkur síðustu daga verið sannkallaður hvalreki. Flugvélarnar eiga líka sumar svo ævintýralegan feril að baki að minnir á þekkt atriði úr kvikmyndum.

Þessi vél var í flugferðum yfir Himalaya-fjöllum í stríðinu gegn Japönum.Vísir/Egill Aðalsteinsson.
Þannig notaði bandaríski herinn vélina, sem nú kallast Spirit of Benovia, í flugi yfir Himalaya-fjöllum í stríðinu gegn Japönum. Eftir stríð hjálpaði hún svo kínverskum þjóðernissinnum að flýja til Taívan þegar kommúnistar náðu völdum í Kína. Bandaríska leynisþjónustan CIA nýtti vélina einnig til ýmissa leyniverkefna í Suðaustur-Asíu. 

Flugvélin, sem smíðuð var árið 1942, lenti í Reykjavík síðdegis í gær. Áætlað er að hún haldi á brott klukkan níu í fyrramálið.

Bandaríska leyniþjónustan CIA notaði þessa vél í leyniverkefnum gegn kommúnistum í Suðaustur-Asíu.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Flugvél, sem nú kallast Liberty, var í eyðimerkurstríðinu í Norður-Afríku en þaðan hröktu Bandamenn heri Rommels og var vélin þá lengst af með bækistöð í Alsír. 

Síðar tók hún þátt í innrásinni í Normandí og fór þá fjölda ferða með fallhlífahermenn og enn eru varðveittar viðgerðarnótur vegna kúlnagata á skrokknum eftir byssukúlur úr þeim orustum.

Þessi fékk kúlnagöt á skrokkinn í innrásinni Í Normandí en áður var hún í eyðimerkurstríðinu í Norður-Afríku.Stöð 2/Baldur Hrafnkell Jónsson.
Eftir stríð var hún svo seld til einkaaðila sem notuðu hana lengst af í flugi með forstjóra stórfyrirtækja. Frá Reykjavík flaug hún til Skotlands í hádeginu í dag.

Þristurinn Liberty á leið í flugtaksstöðu í hádeginu.Stöð 2/Baldur Hrafnkell Jónsson.
Sögufrægasta flugvélin, sú sem leiddi innrásina í Normandí og kallast „That's All, Brother", hélt einnig af landi brott í dag.

Auk þess að vera forystuvél og fara fyrir 800 flugvélum á D-deginum árið 1944 flutti hún einnig fallhlífahermenn og dró svifflugur, fullar af hermönnum, inn fyrir víglínu óvinanna.

Forystuvél innrásarinnar í Normandí í flugtaksbruni í morgunStöð 2/Baldur Hrafnkell Jónsson.
Enn eru átta þristar ókomnir og var búist við sex þeirra til Íslands í dag. Þeir hafa hins vegar enn tafist á leiðinni vegna ísingarhættu og bíða flestir á Grænlandi. Stefnt er að því að þeim verði flogið áfram til Reykjavíkur í fyrramálið.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Þristarnir fresta för til morguns

Þristarnir sex, sem búist var við til Íslands í kvöld, eru enn að tefjast vegna ísingarhættu á flugleiðinni milli Labrador og Grænlands. Ákváðu áhafnir þeirra nú síðdegis fresta fluginu til Íslands en gista þess í stað á Grænlandi í nótt.

Þristarnir streyma inn til Reykjavíkur

Alls fjórtán flugvélar frá stríðsárunum, svokallaðir þristar, millilenda á Íslandi næstu tvo sólarhringa á leið sinni frá Bandaríkjunum til Evrópu til að minnast innrásarinnar í Normandí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×