Innlent

Rakel tekur við störfum Þóru sem fer í ársleyfi

Birgir Olgeirsson skrifar
Þóra Arnórsdóttir og Rakel Þorbergsdóttir.
Þóra Arnórsdóttir og Rakel Þorbergsdóttir.
Þóra Arnórsdóttir er á leiðinni í árs leyfi frá störfum sem ritstjóri fréttaskýringaþáttarins Kveiks á RÚV. Þóra verður í launalausu leyfi en á meðan mun Rakel Þorbergsdóttir, fréttastjóri Ríkisútvarpsins, taka við ritstjórn Kveiks.

Rakel segir í samtali við Vísi að hún muni ekki verða einn af umsjónarmönnum Kveiks heldur aðeins ritstjóri samhliða því að gegna stöðu fréttastjóra.

Varafréttastjóri RÚV, Heiðar Örn Sigurfinnsson, mun í staðinn stíga betur inn í rekstur og ritstjórn fréttastofunnar á meðan Rakel beinir sjónum sínum að Kveik.

„Ég gæti ekki gert þetta nema að Heiðar taki á sig meiri ábyrgð. Þannig skapast meira svigrúm. Þetta er ekkert sem er óþekkt í hinum stóra heimi. Menn gera þetta oft og iðulega,“ segir Rakel.

Hún er spennt fyrir að fá að vinna með Kveiks-fólkinu enda átti hún þátt í að skapa þennan þátt. „Og verð núna með meiri afskipti og það er bara spennandi,“ segir Rakel.

Á meðal liðsmanna Kveiks næsta vetur verða Lára Ómarsdóttir, Helgi Seljan, Ingólfur Bjarni Sigfússon, Aðalsteinn Kjartansson og Sigríður Halldórsdóttir.

Þóra mun hafa vetursetu á Ítalíu ásamt fjölskyldu sinni en þar hefur maður hennar Svavar Halldórsson stundað meistaranám.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×