Á vef KCNA er haft eftir ónafngreindum talsmanni Utanríkisráðuneytis Norður-Kóreu að tilraunir Norður-Kóreu séu í samræmi við rétt þeirra til sjálfsvarna. Eldflaugarnar hafi ekki beinst gegn neinu ríki og hafi ekki ógnað neinum.
Því sé Bolton að skipta sér af einhverju sem komi honum ekkert við.
Sjá einnig: Nýr ráðgjafi Trump umdeildur
Í yfirlýsingunni segir einnig að ekki sé rétt að kalla Bolton þjóðaröryggisráðgjafa. Réttara væri að kalla hann „öryggis-eyðileggingar“ ráðgjafa og hann sé þekktur fyrir „þráhyggju“ varðandi stríð í Mið-Austurlöndum og Suður-Ameríku.
Það sé engin tilviljun að „stríðsmangarinn“ sé að hvísla um stríð í eyru forseta sem kom sér undan herþjónustu, sem segist ekki hafa viljað deyja á hrísgrjónaakri í suðaustur Asíu.
„Það er alls ekki skrítið að svo öfugsnúin orð komi sífellt úr munni svo gallaðs gaurs, og svona mennskur galli á skilið að hverfa sem fyrst,“ segir í yfirlýsingunni.
Norður-Kóreumenn skutu nokkrum eldflaugum á loft fyrr í mánuðinum og segja sérfræðinar mögulegt að einhverjar þeirra gætu verið notaðar til að komast hjá eldflaugavörnum Suður-Kóreu og Bandaríkjanna, samkvæmt Reuters fréttaveitunni.
Donald Trump og starfsmenn hans í Hvíta húsinu hafa gert lítið úr eldflaugaskotunum. Þegar Trump var spurður út í þau á blaðamannafundi í Japan í morgun sagði hann ekki hafa áhyggjur.
Trump sagði Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, vera snjallan mann sem hafi skotið eldflaugunum á loft til að fá athygli.
„Það eina sem ég veit er að það hafa ekki verið gerðar tilraunir með kjarnorkuvopn, né langdrægar eldflaugar. Engar langdrægar eldflaugar fóru á loft og ég held að einhvern daginn munum við ná samkomulagi,“ sagði Trump og bætti við að honum lægi ekki á.
Það er þó ljóst að eldflaugaskotin vöktu áhyggjur í Japan og Suður-Kóreu og Shinzo Abe, forsætisráðherra Japan og gestgjafi Trump, fordæmdi þau harðlega. Hann sagði Japan stafa ógn af eldflaugum Norður-Kóreu en lofaði Trump fyrir nýja nálgun gagnvart einræðisríkinu.
Þá lofaði Trump Kim enn einu sinni fyrir viðleitni hans til að byggja upp efnahag ríkisins og sagði einræðisríkið fátæka geta orðið efnahagslegt stórveldi.
Nánast allar tekjur ríkisins fara í herinn og í kjarnorkuvopna- og eldflaugaáætlanir Norður-Kóreu.