Innlent

Tillaga um nýtt auðlindaákvæði „yfirgengilegt hneyksli“

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Þorvaldur Gylfason lét í ljós óánægju sína með útspilið á Facebook-síðu sinni í kvöld.
Þorvaldur Gylfason lét í ljós óánægju sína með útspilið á Facebook-síðu sinni í kvöld.
Þorvaldur Gylfason, hagfræðiprófessor sem sat í stjórnlagaráði, er langt frá því að vera ánægður með tillögu að nýju auðlindaákvæði á stjórnarskrá landsins sem Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, fjallaði um í kvöldfréttum RÚV.

Ekki náðist í Þorvald við gerð fréttarinnar en í stöðuuppfærslu sem Þorvaldur skrifaði á Facebook kemur hann á framfæri óánægju sinni með útspilið.

„Þessi tillaga um auðlindaákvæði er yfirgengilegt hneyksli, svo miklu verri er hún en tillaga Stjórnlagaráðs sem 83% kjósenda lýstu sig samþykka í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012,“ skrifar Þorvaldur.

„Orðin „sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar“ eru farin. Orðin „gegn fullu gjaldi“ eru farin. Orðin „Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli“ eru farin. Ég gæti haldið áfram“.

Tillagan hefur verið birt í samráðsgátt stjórnvalda en tillagan er svohljóðandi:

„Auðlindir náttúru Íslands tilheyra íslensku þjóðinni. Nýting auðlinda skal grundvallast á sjálfbærri þróun. Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru þjóðareign. Enginn getur fengið þessi gæði eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota. Handhafar löggjafarvalds og framkvæmdarvalds fara með forræði og ráðstöfunarrétt þeirra í umboði þjóðarinnar. Veiting heimilda til nýtingar á náttúruauðlindum og landsréttindum sem eru í þjóðareign eða í eigu íslenska ríkisins skal grundvallast á lögum og gæta skal jafnræðis og gagnsæis. Með lögum skal kveða á um gjaldtöku fyrir heimildir til nýtingar í ábataskyni.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×