Skoðun

Jæja

Guðmundur Steingrímsson skrifar
Nú hefur breska þingið og líka Landvernd lýst yfir neyðarástandi í umhverfismálum. Ég held að það sé ekkert annað að gera en að íslensk stjórnvöld, þing eða ríkisstjórn, geri slíkt hið sama. Á næstu tíu árum mun koma í ljós hvort hægt verður að beina jörðinni af braut ofhitnunar eða ekki. Ef það tekst ekki, þá getum við alveg hætt að bursta tennurnar. Ekkert mun skipta máli. Öfgafull veður, skortur, örbirgð, almennt böl, útdauðar dýrategundir og brátt útdautt mannkyn verður leiðarendinn ef það mistekst að leysa þessa úrslitaþraut.

Ég tók próf á vefsíðu um helgina. Þar átti ég að forgangsraða þeim aðgerðum sem kæmu sér best fyrir umhverfið. Þetta var soldið lúmskt próf. Margt hljómaði sennilega og allt skipti máli, en það er skemmst frá því að segja að ég kom ferlega illa út úr þessu. Vissi ekki mikið. Ég vissi til dæmis ekki hvað ísskápar og loftkælingar heimsins hafa ótrúlega slæm áhrif á andrúmsloftið. Það þarf að skipta þeim öllum út fyrir umhverfisvænni lausnir, sem munu vera á leiðinni á markað. Mig grunaði að minni sóun matvæla skipti máli, en ekki að hún væri í þriðja sæti yfir áhrifamestu aðgerðirnar samkvæmt heimasíðunni drawdown. org. Að minnka kjötát er á topp fimm. Að fleiri eldi mat á góðri eldavél, en ekki til dæmis yfir opnum eldi, er í 21. sæti. Að rafbílavæða heiminn er í 26. sæti. Umhverfisvænni flugvélar eru í 46. sæti. Að leggja hjólareiðastíga í borgum er í 59. sæti.

Hvað getum við gert?

Staðreyndin er þessi: Á öllum sviðum samfélagsins þarf að grípa til aðgerða. Ekkert eitt leysir málið. Mér sýnist hins vegar að núna, þegar komið er að því að segja að íslenskum sið hið góða og fornkveðna „jæja“ og fara að bretta upp ermar í þessum málum, þá verði þetta að koma fyrst: Að fræða okkur öll. Hvað getum við gert? Það þarf að segja okkur það.

/mynd/estelle divorne
Það sem vakti athygli mína og jók mér bjartsýni við það að skoða listann á heimasíðunni yfir nauðsynlegar aðgerðir og forgangsröðun þeirra, var hversu viðráðanlegt og í raun sjálfsagt og gott hvert verkefni er fyrir sig. Hver vill sóa matvælum? Það er sjálfsagt að minnka slíkt. Hver vill eiga ísskáp sem spúir gróðurhúsalofttegundum? Hver vill ekki umhverfisvænan bíl? Engin aðgerð á þessum lista var þess eðlis að maður hugsaði: „Ó, nei! Ég vil frekar deyja út en að gera þetta.“ Sem sagt: Ef ég — sem mikið kjötmenni til langs tíma og einlægur aðdáandi góðrar nautasteikur — þarf að binda nautakjötsát við afmælið mitt hér eftir, nú þá það. Svoleiðis verður það að vera. Ég hef þegar hafið heimatilbúna hugræna atferlismeðferð til þess að sannfæra sjálfan mig um það að spergilkál, sérstaklega þegar það er steikt upp úr smjöri og salti (á góðri eldavél), sé mun ljúffengara.

Ekkert skiptir meira máli

Jæja, segi ég. Nú þarf að fara að gera eitthvað. Það er komið að þessu. Dæsandi þurfum við öll að standa upp frá eldhúsborðinu og ganga til verka, eins og Íslendingar hafa gert um aldir. Út að vinna. Öll saman. Baráttan við ofhitnun jarðar er langstærsta viðfangsefni samtímans. Allt annað bliknar. Það er vissulega gott að það er búið að gera kjarasamninga og það er rosaspennandi að bankarnir séu búnir að opna fyrir það að maður geti borgað með símanum sínum og það væri klárlega gaman að sjá Hatara komast áfram á morgun, en allt þetta er hjóm í samhengi við mikilvægi þess að ganga hraustlega til verka í umhverfismálum.

Um leið og almenningur er fræddur svo um munar, þarf einnig að leggja fram pakka á þingi. Lög þarf að setja. Það er augljóst til dæmis að við ætlum ekki að styðja kjötframleiðslu um marga milljarða á ári í veröld þar sem verður lífsnauðsynlega að draga úr kjöt­áti. Það er augljóst að þeir sem keyra bensínháka verða að hætta því. Umhverfisskattar á óumhverfisvæna framleiðslu, neyslu og þjónustu, eins og stóriðju, flugsamgöngur og óumhverfisvænan landbúnað verða að koma til. Og þeir skattar verða að renna beint í kolefnisjöfnun þessara athafna og/eða umskiptingu yfir í aðra framleiðslu eða umhverfisvænni tækni. Það er líka augljóst að við þurfum að taka fullan og hugheilan þátt í öllu alþjóðlegu samstarfi á öllum sviðum til þess að kljást við þennan vanda. Og við þurfum að taka meira strætó. Eða hjóla. Eða ganga.

Í lögum þarf eflaust að banna sumt, hvetja til annars. Neyðarástandið verður að birtast okkur svona: Önnur sjónarmið en umhverfissjónarmið fara í annað sæti. Undantekningalaust.

Þangað til við erum búin að redda þessu.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×