Körfubolti

Ekki nóg fyrir Denver að hægja á hetju Portland liðsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Vanterpool, aðstoðarþjálfari Portland Trail Blazers, talar við Damian Lillard í leiknum í nótt.
David Vanterpool, aðstoðarþjálfari Portland Trail Blazers, talar við Damian Lillard í leiknum í nótt. AP/David Zalubowski
Portland Trail Blazers jafnaði metin í 1-1 í einvígi sínu á móti Denver Nuggets í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt en fyrstu tveir leikirnir fóru fram á heimavelli Denver.

Portland vann leikinn með sjö stigum, 97-90, eftir að hafa verið fimmtán stigum yfir í hálfleik, 50-35. Denver vann fyrsta leikinn 121-113 en gekk mjög illa að hitta körfuna framan af leik þrátt fyrir að vera á heimavelli.

Denver liðið lagði ofurkapp á það að stoppa Damian Lillard sem hefur farið mikinn með Portland í úrslitakeppninni með 34,8 stig í leik og skoraði Lillard meðal annars 39 stig í fyrsta leiknum.





Það tókst að hægja á hetju Portland liðsins en hinir leikmenn liðsins nýttu sér tækifærið og alls skoruðu sex leikmenn liðsins yfir tíu stig.

Damian Lillard hitti aðeins úr 5 af 17 skotum sínum og var bara með 14 stig. Hann fékk samt hrós frá liðsfélaga sínum eftir leikinn.

„Liðin geta ekki varist honum með einum manni. Þeir verða að tví- og þrídekka hann. Þá sagði ég. Hann er að gera sjálfan sig betri en um leið er hann að gera alla betri í kringum sig. Hann var að gefa boltann og var mjög virkur í vörninni. Hann hefur verið ótrúlegur,“ sagði Enes Kanter sem skoraði einu stigi meira en Lillard eða 15 stig.  





CJ McCollum var stigahæstur í Portland liðinu með 20 stig. Nikola Jokic var með 16 stig og 14 fráköst fyrir Denver en hann skoraði 37 stig í fyrsta leiknum.

Það munaði mikið um það fyrir Portland liðið að Rodney Hood (15 stig og 3 varin á 27 mínútum) og Zach Collins (10 stig og 6 fráköst á 17 mínútum) komu með öflugt framlag inn af bekknum.







NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×